136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. 60 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins eru vissulega merkileg tímamót en ég get ekki sagt að þessi dagur í dag sé neinn sérstakur hátíðisdagur. Það má margt af sögu þessa dags læra um það hvernig eigi að haga ákvörðunum í alþjóðasamskiptum, að skapa samstöðu og brúa bil frekar en að efna til ófriðar.

Að því er varðar hins vegar áhyggjuefni sjálfstæðismanna af umræðu um skýrslu utanríkisráðherra og skýrslur alþjóðanefnda fagna ég nýtilkomnum áhuga Sjálfstæðisflokksins á að ræða þau mál sem almennt liggja fyrir þinginu. Hingað til höfum við heyrt hér geipað um það af hálfu sjálfstæðismanna dag eftir dag að einungis eigi að ræða brýnustu efnahagsaðgerðir í þágu heimilanna en nú er það þannig að málþófsflokkurinn mikli vill fá að halda áfram að þæfa og tala og tala og tala. Það er gott, við fögnum því. Okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þingstörfum áfram vel fram í aprílmánuð. (Gripið fram í.)