136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um afmæli Atlantshafsbandalagsins sem ég tel þó að hafi verið vel við hæfi að vekja athygli á á þessum stað á þessum degi.

Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri vegna þess að hér hefur nokkuð verið vikið að verkefnum sem liggja fyrir þinginu og spyrja hæstv. forseta hvort fyrir liggi áform eða áætlanir um þingstörf í þessari viku og lengur, hvort forseti geti gefið okkur upplýsingar um hvernig hann hyggst haga þingstörfum þannig að þingmenn geti skipulagt sig. Ég held að öllum þingmönnum sé ljóst að hér eru ýmis verkefni sem á eftir að sinna en ef hæstv. forseti gæti útskýrt það fyrir okkur á þessari stundu hver áform hans eru væri það til mikils gagns.

Ég vil líka taka undir það sem áður hefur verið sagt að það eru ákveðnir liðir, t.d. skýrsla Ríkisendurskoðunar og skýrsla umboðsmanns Alþingis, sem jafnan (Forseti hringir.) hafa verið teknr fyrir og ræddir í þinginu, og eins og (Forseti hringir.) hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að áðan er alveg skýrt í lögskýringargögnum að þegar frumvörpin (Forseti hringir.) voru samþykkt var ætlast til þess að þær væru ræddar hér í þinginu.