136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst það alveg sjálfsagt mál að finna fyrir það tíma í störfum þingsins á næstunni að ræða allar þær skýrslur sem sjálfstæðismenn vilja ræða og nokkrar í viðbót þess vegna og taka góðan tíma í það enda þinginu ekkert að vanbúnaði að vera hér áfram við störf um sinn.

Hitt finnst mér fulllangt gengið að vera að skakast hér á forseta fyrir að hafa ekki hjálpað Sjálfstæðisflokknum til að halda hér einhverja hyllingarsamkomu í þágu hernaðarbandalagsins NATO. Mér finnst að sjálfstæðismenn geti bara haldið hana sjálfir í Valhöll ef þá ekki bara suður á Keflavíkurflugvelli, ég held að það sé búið að opna offíserabarinn og sjálfstæðismenn geta bara farið þangað og haldið upp á aðdáun sína og dýrkun á NATO. Við hin mundum svo kannski hittast einhvers staðar annars staðar og ræða um framferði NATO í Íran og Afganistan og víðar þar sem NATO eða NATO-þjóðir hafa tekið til hendinni þannig að óbreyttir borgarar í þeim löndum vita vel hvað þar er á ferðinni.