136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[16:10]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti biðst undan því að hafa sagt að þetta væri afgangsmál. Það hefur ekki komið fram í ræðu hér og biðst hann velvirðingar hafi svo verið. Aftur á móti hefur forseti leitað eftir því við þingflokksformenn að raða málum inn ásamt forsætisnefnd og hefur verið leitast við að gera það af besta mætti. Hafi menn óskir um að við fundum um þetta síðar í dag þá skal það verða gert og þá verður rætt hvenær menn setja þetta á dagskrá.

Það er nýtt fyrir forseta að þessi mál eigi öll að koma nú áður en menn ljúka þingi. Ekki er langt síðan að menn óskuðu eftir því að þingi lyki hér 12. mars. Skömmu síðar var settur ákveðinn forgangur, sem forseti hefur hlustað á úr þinginu, hvaða mál við tækjum fyrir. Því hefur verið dreift hér í dag og forseti hlýtur að sjálfsögðu að meta þær óskir sem koma fram hjá þingmönnum um hvaða mál eru rædd hér í þinginu og mun hlusta vel eftir því og fylgja þeim reglum sem um það gilda.

Óvenjulegt er að hér séu kosningar í apríl og kannski ekki tími til að ljúka öllum málum. En það er líka stutt í sumarþing, þar sem gefst þá tækifæri til að taka fyrir ýmis mál sem ekki næst að ljúka fyrir 4. apríl eða þann tíma sem settur var.

En forseti óskar að sjálfsögðu eftir góðu samstarfi um það með hvaða hætti þingið verður starfandi og tekur við öllum góðum tillögum sem koma um fundarstjórn forseta og störf þingsins.