136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[16:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérstakt að hlusta á þingmenn hælast um hverjir hafi komið fyrst með málin, en það er nú þannig að Framsóknarflokkurinn flutti hér mál um greiðsluaðlögun á þessu þingi á undan hinum flokkunum, svo því sé til haga haldið. (Gripið fram í.) Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að góð samstaða hefur tekist um að fara með málið hér í gegnum þingið, og þó að þetta mál sé ekki nákvæmlega eins og það sem Framsóknarflokkurinn flutti hér er þetta mál til bóta og þess vegna munum við segja já, virðulegur forseti.

Eins og allir vita vildum við fá, og viljum fá 20% leiðréttingu til að hægt sé að leiðrétta skuldir heimilanna og ég tel að við eigum að fara í þá aðgerð. Þetta mál er hins vegar eigi að síður brýnt og sérstaklega núna þegar við sjáum fram á þetta efnahagshrun þá er þörf fyrir að ákveðinn hópur fólks fari í greiðsluaðlögun. Við segjum því já, virðulegur forseti.