136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[16:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sama hvaðan gott kemur. Ég er hér komin til þess að árétta að það frumvarp sem við samþykkjum nú, um greiðsluaðlögun, er aðeins einn hluti af þeim aðgerðapakka sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram og kominn er til framkvæmda. Þá vil ég minna á að við höfum lokið við og orðin er að lögum frestun á gjaldþrotum á íbúðarhúsnæði, fram til 1. október næsta haust og að í morgun ákvað hv. allsherjarnefnd að flytja hér inn í þingið frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Þetta þrennt, almenn greiðsluaðlögun, frestun gjaldþrota, sem þegar er komin til framkvæmda, og greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, mun koma heimilum, ofurskuldsettum heimilum í landinu mjög til góða.