136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

tóbaksvarnir.

162. mál
[16:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé sérstakt fagnaðarefni að verið sé að heimila að settar verði upp litmyndir á sígarettupakkana til varnar þeim sem tóbakið nota. Eins og menn muna fór hér fram mikil umræða á sínum tíma um að það ætti ekki að leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Þá kom upp mikil frelsisumræða og talað var um að menn ættu að hafa frelsi til þess að reykja á veitinga- og skemmtistöðum. Sem betur fer stóð þingheimur saman um að verja þá sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum gagnvart tóbaksreyk frá öðrum. Það er því mikið fagnaðarefni að nú eru tekin mörg jákvæð skref gegn tóbaksreykingum af því að tóbaksreykingar eru afar skaðlegar, þær eru svo skaðlegar að ég á von á því munum taka enn þá stærri skref á næsta kjörtímabili. Við höfum náð miklum árangri í tóbaksvörnum og þetta mál er eitt af mörgum sem eru í þá áttina. Ég segi já.