136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um ábyrgðarmenn, á þskj. 827.

Nefndin ræddi á fundum sínum einkum 8. gr. frumvarpsins. Eins og fram kemur í fyrra nefndaráliti hefur sú grein verið mest rædd, þ.e. ákvæði greinarinnar um að ekki verði gert fjárnám í heimili ábyrgðarmanns og hvaða afleiðingar það kunni að hafa gagnvart gjaldþrotakröfu.

Af þessu tilefni vill nefndin taka sérstaklega fram að árangurslaust fjárnám vegna þess að óheimilt er að gera fjárnám í fasteign er annars eðlis en árangurslaust fjárnám sökum eignaleysis gerðarþola. Í slíkum tilvikum er ekki um eignaleysi að ræða hjá gerðarþola heldur er aðför árangurslaus sökum þess að óheimilt er að gera aðför. Gjaldþrotalögin gera ekki ráð fyrir því að eignafólk verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Þá áréttar nefndin að greinin nær aðeins til persónulegra ábyrgða en á ekki við þegar ábyrgðarmaður hefur veitt veðleyfi í fasteign sinni. Jafnframt ítrekar nefndin að greinin nær ekki til ábyrgðarsamninga sem hafa verið gerðir fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, það er sem sé ekki afturvirkt, sbr. 12. gr. og ákvæði til bráðabirgða.

Enn fremur vill nefndin taka fram að með eigin atvinnurekstri er átt við atvinnurekstur þar sem viðkomandi þiggur meginhluta launa sinna. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Guðfinna S. Bjarnadóttir og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.