136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:46]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur verið lengi á leiðinni af hálfu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það eru mörg ár síðan tímabært varð að fylgja þessu máli eftir og klára það. Þessi aðgerð með ábyrgð á íbúðakaupum bitnaði oft og tíðum á eldra fólki sem hafði búið við sinn hag og sitt öryggi í sveita síns andlits og bankarnir ólu á þessum skepnuskap, herra forseti. Þetta er eitt af mörgum dæmum um vinnubrögð bankanna á undanförnum árum sem má nefna, á löngu árabili þar sem menn voru plataðir til að taka þátt í undirskriftum og bankarnir gátu leikandi séð fyrir fram að dæmið gat ekki gengið upp nema allt væri skothelt. Þeir vissu að það var ekki skothelt.

Þetta voru ólög og það er mikið fagnaðarefni að þetta baráttumál Lúðvíks Bergvinssonar skuli vera að koma til framkvæmda. Því ber að fagna sérstaklega að þetta gangi nú fram og að slík ósvinna sem hefur viðgengist í þessum efnum muni ekki tíðkast áfram.