136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:15]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir ákveðna upprifjun en hins vegar má ekki slíta hluti úr eðlilegu sögulegu samhengi. Það var ekki vegna Kvennalistans sem straumhvörf urðu hvað varðar réttindi kvenna í íslensku samfélagi. (Gripið fram í.) Hugmyndir um jafnstöðu kvenna eru eldri en saga Kvennalistans. Það urðu einfaldlega viðhorfsbreytingar, sérstaklega urðu þær mjög hratt upp úr 1970. Við getum m.a. séð á töflunni sem kemur fram með greinargerðinni um hlut kvenna í sveitarstjórnum hvernig hann eykst strax eftir 1970. (Gripið fram í.) Í fyrsta skiptið sem konur ná yfir 20% múrinn er 1982 og þær eru komnar yfir 30% múrinn nokkru síðar.

Það var síður en svo eingöngu fyrir baráttu kvenna sem árangur náðist. Ég tek fram að ég hef fullan skilning á því réttlætismáli að konur njóti jafnstöðu við karla. En ég lít ekki á það sem sérstakt kvennamál og ég lít ekki á það sem eitthvert sérstakt hlutverk kvenna að berjast fyrir. Ég lít á það sem hlutverk allra þeirra sem vilja hafa eðlileg mannréttindi og að borgararnir í þjóðfélaginu séu jafnsettir óháðir kyni, búsetu og öðrum takmörkunum. Það finnst mér skipta miklu máli.

Þess vegna lít ég þannig til, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, að það sé jafnmikil skylda mín að berjast fyrir hagsmunamálum kvenna og jafnstöðu kvenna og karla og kvenna í stjórnmálum. Það er einfaldlega skylda allra þeirra sem vilja berjast fyrir eðlilegu og réttlátu samfélagi.