136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:25]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að vera hér til að greiða atkvæði um þetta mál en því miður náði ég því ekki. Ég gat ekki verið við upphafið. Ég gæti sagt margar reynslusögur, bæði í nútíð og fortíð. Þetta mál kom fram snemma á þinginu og ef menn hefðu vitað það í haust þegar þeir lögðu málið fram að hér yrðu alþingiskosningar 25. apríl hefði málið væntanlega verið um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, þ.e. sveitarstjórnum og Alþingi, líkt og hv. flutningsmaður Siv Friðleifsdóttir nefndi. Síðasta dæmisaga hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur segir meira en margt um það að þessi þingsályktunartillaga hefði allt eins getað breyst þannig að hún væri um að jafna hlut kynja í sveitarstjórnum miðað við þá prófkjör framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi um daginn.

Ég man eftir vinnunni sem fór af stað í kringum síðustu aldamót um að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það var víðtæk vinna af hálfu félagsmálaráðuneytisins. Fáir karlmenn tóku þátt í henni en hjá þeim sem kynntu sér átaksverkefnið leiddi það til þess að menn tóku upp breytta hætti í þeim stjórnmálaflokkum sem kynntu sér það og settu m.a. niður leiðarlínur í þeim efnum, jafnvel þær að reyna að hafa hlutinn sem jafnastan á milli kynjanna eins og menn hafa sett í samþykktir flokkanna. Ég þekki það hjá mínum flokki, Samfylkingunni, að þar var sett strax upp úr síðustu aldamótum að hluturinn skyldi vera 40:60.

Jafn hlutur er til skipta, þar sem tveimur er skipt er 50:50 en oftar en ekki er verið að skipta þremur eða fimm eða annarri oddatölu og þess vegna er lagt upp með 40:60 í þeim tilfellum. Þetta er svipað og við þekkjum í ýmsum reiknireglum þegar við erum með óvissumörk í útreikningum.

Í sjálfu sér er ekkert meira um það að segja, virðulegur forseti, en að þessir hlutir hafa þróast á síðustu árum. Menn geta svo sem hver um sig sagt að allir vildu Lilju kveðið hafa í þeim efnum, m.a. tekið þátt í kvennafrídeginum 1975 eins og ég og fleiri hér gerðum á þeim tíma eða stutt við bakið á einstaka stjórnmálaflokkum.

Auðvitað er þetta eins og með mörg önnur mál, hugarfarið skiptir mestu máli og það þarf að verða hugarfarsbreyting hjá þeim sem ráða för. Við vitum alveg hvernig þetta hefur gerst í kosningum, það eru stjórnmálaflokkarnir sjálfir sem taka ákvarðanir um leikreglur þegar valið er á framboðslistana. Ég hef alla tíð verið á móti því að setja upp einhvers konar girðingar sem búa til einhver hliðarskilyrði nema það sé þá ákvörðun meiri hluta hverju sinni að gera slíkt.

Þær leikreglur sem ég hef séð virka hvað best eru til að mynda þau sjónarmið sem felast í þessum 60–40% skiptingarreglum og hafa haft það í för með sér að menn hafa getað komist í gegnum það skammlaust. Ég er nýkominn af landsfundi Samfylkingarinnar, virðulegi forseti, og get því vottað að þriðja landsfundinn í röð njóta karlmenn þess að vera fluttir upp í framkvæmdastjórn vegna þess að þeir hefðu annars ekki náð kjöri. Þar af leiðandi er það kostur þegar við erum með reglur um að jafna hlut karla og kvenna í þátttöku í stjórnmálum. Annars hefði það þýtt síðustu sex árin, þrjá síðustu landsfundi Samfylkingarinnar, að karlmenn hefðu ekki getað tekið jafnríkan þátt í störfum framkvæmdastjórnar flokksins. Þetta er þekkt úr öðrum stjórnmálahreyfingum, ekki kannski öllum en ég veit að stjórnmálaflokkarnir eru hver um sig að reyna að búa til leikreglur sem miða að því að jafna hlut kynjanna til þátttöku.

Það má kannski segja að átaksverkefni eins og þetta þurfi ekki einungis að vera um að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, heldur líkt og ég sagði áðan að jafna hlut beggja kynja í sveitarstjórnum og á Alþingi. Þetta verkefni gæti verið sífellt í gangi og leyst þá Jafnréttisstofu af hólmi. Í umfjöllun um stjórnarfrumvarp um persónukosningar eins og hér er til umræðu þarf að tryggja að þessi sjónarmið komi fram. Nú þekki ég ekki nákvæmlega, virðulegi forseti, hvernig sú umræða hefur farið fram í allsherjarnefnd en ég álykta sem svo — (Gripið fram í: … félagsmálanefnd.) Félagsmála? Með persónukjörið? Persónukjörið er í allsherjarnefnd. Ég veit ekki hvort Jafnréttisstofa gaf þar umsögn. Ég hefði átt að vera búinn að kynna mér hvort Jafnréttisstofa gaf umsögn áður en þessi umræða fór af stað. Hugsanlega get ég, virðulegur forseti, kynnt mér þá umsögn áður en atkvæðagreiðsla verður um þetta mál. Þetta fer auðvitað saman, ef við breytum kosningalöggjöfinni tengist það einmitt þessu máli hér.

Ég hef verið talsmaður þess að þessir hlutir séu skoðaðir ítarlega og hef verið um langt skeið eins og ég sagði áðan. Ég tel margt hafa áunnist en það þarf að gera ýmislegt mun betur en við höfum gert. Hlutirnir hafa kannski ekki verið alveg nógu samræmdir og við sjáum að þetta snýst ekki eingöngu um aðgerðir til að auka hlut kvenna, heldur snýst þetta líka um aðgerðir til að jafna hlut kynjanna í þátttöku í stjórnmálum, hvort sem er í sveitarstjórnum eða á Alþingi.

Eins og kemur fram í þessari tillögu til þingsályktunar þarf Jafnréttisstofa eðlilega auknar fjárveitingar, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Fjárveitingar til Jafnréttisstofu þyrftu að aukast samhliða slíkum aðgerðum.“

Það liggur þá fyrir þinginu þegar það kemur saman í sumar eða haust að afgreiða fjáraukalög þessu tengt ef þessi tillaga hlýtur brautargengi frá Alþingi. Ég vona sannarlega að hún geri það.

Að lokum, virðulegur forseti, svo ég lengi ekki þessa umræðu eins og jafnan er sagt, held ég að einnig verði að skoða á næstu mánuðum og árum að fara í sambærilegar aðgerðir til að auka hlut nýbúa í stjórnmálum. Nýbúar eru vissulega sá hópur sem á erfitt uppdráttar innan stjórnmálaflokkanna, á oft og tíðum erfitt með að koma sér á framfæri í prófkjörum eða forvali eða einhverju slíku. Við sjáum það einfaldlega á þátttöku þeirra og við þekkjum það úr svo fjölmörgum félagsstörfum og jafnvel þátttöku nýbúa í íþrótta- og æskulýðsstarfi að það þarf að fara fram með markvissari aðgerðir til að auka hlut þeirra í hvoru tveggja, sveitarstjórnum og Alþingi annars vegar og hins vegar á ýmsum öðrum sviðum.

Ég vona sannarlega, virðulegur forseti, að aðgerð eins og þessi verði til lengri tíma litið sagan ein því að hugarfarið verði orðið þannig að aðgerða sé ekki þörf en horfi hins vegar til þess að á næstu árum verði Alþingi að beita sér fyrir því, jafnt sem sveitarstjórnir, að koma fram með verkefni sem auka hlut nýbúa í stjórnmálum. Ef ég hefði tækifæri til að styðja slíkt verkefni sem færi af stað á vegum Alþingis, ráðuneyta og/eða sveitarstjórna mundi ég sannarlega gera það.

Ég þekki til nokkurra slíkra verkefna þar sem ég bý í Hafnarfirði. Þar hafa nokkur nýbúaverkefni gengið fram með ágætum. Hins vegar held ég að þau verkefni þurfi alltaf að vera uppi á dekki nú á dögum. Ef við styðjum ekki við bakið á þeim verða þau á undanhaldi. Sá hópur hefur því miður ekki haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum ríkt á framfæri svipað og konur lentu í fyrir áratugum þegar þær höfðu engin tækifæri. Því hvet ég, virðulegur forseti, alla þá sem vilja huga að þeim málum að horfa til þess til framtíðar að slík átaksverkefni séu á sambærilegan hátt sett af stað.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir máli mínu. Ég styð að sjálfsögðu þessa þingsályktunartillögu þó að ég hefði viljað hafa hana með örlítið öðrum hætti, þá þannig að hlutur kynjanna væri jafnaður, bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi, að þetta væri átaksverkefni sem við horfum ekki bara til vegna kosninganna 2010, heldur til lengri framtíðar. Við þurfum þá að huga að því í kjölfarið að auka fjárveitingar til Jafnréttisstofu til að hún geti stutt þetta verkefni. Það verður þá væntanlega gert í kjölfarið í fjáraukalögum fyrir árið 2008. Í þriðja lagi, virðulegur forseti, vék ég að því að hægt væri að fara fram með sambærilegt verkefni — svo fremi að það sé ekki nú þegar í gangi — við að auka hlut nýbúa í þátttöku í stjórnmálastarfi, sveitarstjórnum og Alþingi.