136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:37]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það má taka undir margt sem hér hefur verið sagt við framgang þessa máls sem er til umfjöllunar og afgreiðslu. Ég vil byrja á því að vara við samlíkingu hv. þm. Jóns Magnússonar þar sem hann fjallaði um atkvæðavægi. Það má tala um atkvæðavægi alveg eins og þegar menn tala um hlutfall kynja í þátttöku í samfélaginu ef menn velja þann kostinn en hv. þingmaður kvartaði yfir því að vægi atkvæða eftir kjördæmum væri mismunandi og táraðist sérstaklega fyrir hönd Reykjavíkurkjördæmanna tveggja.

Þegar talað er um vægi og hlutfall orkar margt tvímælis. Það er engin spurning að hinir ágætu íbúar höfuðborgarinnar búa við ákveðin forréttindi, forréttindi í aðgengi að mörgum þáttum hvort sem það er á sviði samgangna, menningar, menntunar eða heilsugæslu. Þeir eiga stuttar leiðir að öllum þessum þáttum velferðarsamfélagsins og þurfa ekki að hugsa langt út fyrir þann ramma að öllu jöfnu.

Þetta vægi er allt annað úti á landsbyggðinni þar sem fólk býr við lokun flugvalla á ákveðnum tímum dagsins, ófærð á vegum, fjarlægðir og margt sem heftir för. Þetta er hlutur sem þarf að meta í öllum þessum þáttum og taka tillit til.

Það skiptir miklu máli að menn rugli ekki saman efnum í þessum þáttum því að það er alveg klárt mál að íbúar hinnar ágætu höfuðborgar Íslands mundu ekki kunna að meta það ef Ártúnsbrekkunni yrði lokað kl. 6 á kvöldin eða Reykjanesbrautinni. Það er einfaldlega hlutur sem kæmi ekki til greina en margir íbúar landsbyggðarinnar verða að láta sér lynda að búa við takmarkanir á mörgu er lýtur að þeim þáttum öllum sem ég nefndi áðan.

Að auka hlut kvenna í stjórnmálum í sveitarstjórnum er auðvitað virðingarvert sjónarmið. En ég held að það sé miklu mikilvægara, eins og hv. þm. Jón Magnússon kom inn á áðan, að auka og styrkja hlut kvenna á hinum almenna vinnumarkaði á Íslandi, kvenna í fiskverkun, iðnverkakvenna, kvenna í þjónustu á sjúkrahúsum o.s.frv. Konurnar sem vinna hljóðlátu en mikilvægu verkin og oft og tíðum erfiðustu verkin í samfélaginu, langsamlega erfiðustu, detta niður milli skips og bryggju í hjalinu um þessa styrkingu á hlutdeild kvenna í samfélaginu.

Í mínu sveitarfélagi vandist ég því að aldrei var gerður munur á karli og konu til verka, aldrei. Það spannst úr því eins og verkast vildi, eftir því hvort konur eða karlar vildu ganga til ákveðinna verka. Það var fullkomið traust þarna á milli, fullkomið jafnvægi. Í stuttu máli má segja að í þeim stóra vertíðarbæ Vestmannaeyjum stjórnuðu konur í landi, karlarnir á sjó. Jafnvel þó að karlar hefðu fororð í mörgum þáttum var það þannig að í reyndinni réðu konurnar æðimiklu. Þetta var átakalaust, þetta var eðlilegt, þetta var unnið af brjóstviti og skynsemi og ekki með neinum tilkynningarreglum eða tilviljun.

Við höfum dæmi úr prófkjörum síðustu vikna þar sem notaður var kynjakvóti að þar var kannski erfitt að fá ákveðið kyn í ákveðið sæti og menn leituðu logandi ljósi að einhverjum sem vildi fara í öruggt sæti á meðan aðrir frambjóðendur af öðru kyni, hugsjónamenn, reynsluboltar, menn með framsæknar hugmyndir o.s.frv. vildu líka fara í þessa röð en fengu ekki vegna kyns. Hvaða glóra er í þessu? Auðvitað er engin glóra í þessu, virðulegi forseti. Ef ég ætti að velja skipstjóra á bát og hefði um að velja hv. þingmenn Arnbjörgu Sveinsdóttur og Grétar Mar Jónsson mundi ég auðvitað velja Grétar Mar Jónsson. Hann hefur reynsluna og þekkinguna sem skipstjóri þó að Arnbjörg kynni að verða mikil aflakona líka en þannig hljóta menn að velja til verka eftir því hvernig einstaklingurinn er í stakk búinn, ekki af hvoru kyninu hann er. Hvergi í heiminum hefur gengið að hafa þann útgangspunkt að velja til verka eftir kyni þó að það sé æskilegast að sem flestir af báðum kynjum taki þátt í þeim verkum sem vinna þarf í samfélaginu.

Það er nú svo og á við um hv. Alþingi eins og marga aðra vinnustaði að hér eru tveir hópar í stórum dráttum, kerlingar og konur, og ég vil þá undirstrika að einu kerlingarnar sem ég hef hitt um ævina eru karlar. (Gripið fram í: … skilgreindur sem kerling?) Ég sagði í megindráttum. (Gripið fram í: Hvað þýðir þá að vera kerling?) Orðið kerling hefur margs konar merkingu og þess vegna er hægt að nota það í svona orðatiltæki.

Gott dæmi um það af hverju það er svo mikilvægt að styrkja þátt fólksins í landinu, almennings, fólks sem vinnur hörðum höndum er að fólk verður að byggja á hugviti sínu og verkviti, því að það gleymist æðimikið í allri þessari umræðu að það sem skiptir mestu máli í öllu er lýtur að þátttöku í verkefnum fyrir samfélagið er verkvitið. Verkvit er ekki eitthvað sem menn læra með því að babla á bók. Verkvit er þáttur í brjósti hvers og eins og byggir á reynslu hvers og eins. (VS: Verkvitið er svo fallegt.) Það er alveg rétt, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, verkvitið er fallegt því að það kemur beint frá hjartanu og frá reynslu þess einstaklings sem um ræðir.

Það var sláandi dæmi um vöntun á þessari umhyggju fyrir almennu fólki í landinu að lesa auglýsingar fyrir nokkrum dögum í landsmálablöðunum þar sem nærri 300 einstaklingar skrifuðu undir hvatningu til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Það kom svo sem ekkert á óvart að menn mundu raða sér og safna sér þannig saman þó að augljóst væri að margir þar á blaði hefðu örugglega ekki skoðað mikið rökin fyrir því sem þeir voru að sækjast eftir, kostina og gallana. En það sem vakti athygli við þessar auglýsingar með nöfnum nærri 300 Íslendinga þar sem allir voru tilgreindir með starfsheiti eða stöðu var að þarna var enginn verkamaður, engin verkakona, enginn sjómaður, engin húsmóðir, enginn rafvirki, enginn smiður, enginn pípulagningameistari, engin skúringakona — sem nú heitir víst ræstitæknir — enginn tónlistarmaður, engin hjúkrunarkona, ekkert skáld, ekkert nema fólk sem tjaldaði titlum.

Þetta var auglýsing með hvatningu um að ganga í Evrópusambandið. (VS: Hafa ekki allir einhverja titla?) Nei, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, fæstir landsmenn tjalda titlum. Þannig er það nú og ætti hv. landsbyggðarþingmanni að vera kunnugt um það. Það var heldur enginn bóndi á þessu blaði, þar var enginn af þeim sem við köllum í daglegu tali venjulega Íslendinga, enginn. Þetta var flestallt fólk sem er í skjóli opinberra stofnana eða öflugra fyrirtækja.

Þetta er áhyggjuefni. Það ætti auðvitað að vera miklu meira forgangsverkefni að styrkja stöðu þessa fólks og ekki síst kvenna sem vinna þau mikilvægu störf í samfélaginu og ég vék að áðan, vinna slorstörfin, erfið hjúkrunarstörf, erfið störf til allra átta, á erfiðum vöktum, á þungu bónuskerfi til að hafa eitthvert roð við þeim sem hafa búið sér betur í haginn í samfélaginu.

Það hefur komið fram í ræðum á hv. Alþingi þegar fjallað er um að jafna hlut karla og kvenna að þá er eins og málflutningurinn byggist stundum á kynhatri sem er auðvitað afskaplega slæmt í öllum samfélögum, ekki síst litlu og persónulegu samfélagi eins og Ísland er. Þetta eru þættir sem við þurfum að huga miklu meira að, leggja meiri rækt við og sinna grasrótinni í okkar samfélagi, fólkinu sem vinnur með það eitt að leiðarljósi að hafa verkvit og vilja. Þarna höfum við slugsað, þetta er ekki viðmiðunin í áhersluatriðum stjórnvalda, þetta er ekki einu sinni viðmiðunin í áhersluatriðum margra verkalýðsfélaga sem virðast vera búin að kyngja því að vera metin sem annars flokks fólk af því að það tjaldar ekki titlum í skjóli þess að vitna í það að kunna og hafa skriflega staðfestingu á því að geta bablað á bók.

Við höfum verk að vinna á mörgum þáttum og þetta er kannski spor sem vonandi verður til gagns, en þetta er ekki það spor að mínu mati sem ætti að vera forgangsatriði. Þar ættum við að sinna miklu, miklu betur fólkinu okkar hvar sem er á landinu, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni og ekki síst þar því að þar er stakkurinn þrengri og svigrúmið minna og meiri ástæða til að hvetja til þess að rækta garðinn.

Einn hluti af þessu dæmi að styrkja stöðu ekki síst kvenna er að horfast í augu við það hver mismunurinn er á menntunarmöguleikum í dreifbýli og þéttbýli. Í dreifbýlinu er mun meira brottfall nemenda til að mynda í menntaskólum en í þéttbýlinu. Þetta er hlutur sem þarf að hugsa um, þegar brottfall meðal nemenda er allt upp í 40%, virðulegi forseti, þá er eitthvað að í menntakerfinu. Þetta hleypur á bilinu 25–40% sem er gríðarlega mikið og við gætum þess ekki einu sinni að fylgja því fólki eftir sem af ýmsum ástæðum hefur horfið frá námi, gætum þess ekki að hvetja það áfram til náms því að nákvæmlega þar, í menntun okkar fólks liggja möguleikarnir í að auka hlut og jafnvægi beggja kynja, hvort sem er til þátttöku í stjórnmálum eða stjórnun af hvaða tagi sem er.

Maður byrjar ekki á hjartaaðgerð á lokastiginu, það verður að byrja á slíkri aðgerð á réttum stað og fara síðan faglega yfir allt sviðið þannig að það sé von til þess að aðgerðin heppnist. Þess vegna þurfum við að hugsa þetta frá grunni og leggja áherslu á að við tryggjum jafnræði fólksins í landinu hvar sem það stendur, tryggja því jafnræði til að nýta upplag sitt, vilja og væntingar til heilla fyrir samfélagið og við getum ekki gert það með því að byrja einhvers staðar í miðju kafi. Það er ekki vænleg aðferð til að hún haldi til lengdar. Reyndar eins og hér hefur verið bent á, þegar eitthvað hefur náðst fram með ákveðnu átaki í að rétta hlut kvenna til þátttöku í stjórnmálum og stjórnun, þá kemur síðan bakslag. Það er auðvitað vegna þess að grunnurinn er ekki í lagi. Það skiptir öllu máli að konur ekki síður en karlar hafi sama rétt og sama möguleika til að sækja fram til þeirra verkefna sem hugur þeirra stendur til. Það gerum við ekki nema með því að breyta ákveðnu hugarfari, ákveðnu verklagi þannig að það vinnist með einhverju verkviti en ekki tilviljanakenndum niðurstöðum úr skýrslum hinna annars ágætu fræðinga landsins. Við þurfum hversdagssvitann, hversdagsreynsluna, reynslu fólksins sem vinnur störfin í þjóðfélaginu út frá þeirri forsendu að hver einasti Íslendingur er jafnmikilvægur og við eigum að geta unnið út frá því.

Þó að menn séu mishæfir til verka eins og eðlilegt er hefur hver sitt svið til brunns að bera og ef við ræktum það ekki, ef við hlúum ekki að því, ef við tryggjum ekki að rétt sé hjálparhönd og lið þar sem má bæta úr og breyta til að nýta vél og hugmyndir og möguleika allrar vélarinnar, alls mannaflans, þá stöðnum við. Þetta er hlutur sem ég held að við þurfum að leggja mikla áherslu á því að þetta er lykillinn að því að við náum árangri í því að styrkja þennan grunn sem þjónar sama markmiði og þau lög sem hér eru til umræðu hafa — að jafna þátttöku. Að vísu með þeim fyrirvara að það er grundvallarsjónarmið mitt að það eigi fyrst og fremst að velja hæfasta einstaklinginn til hvers verks óháð kyni, en það er æskilegast að fólk af báðum kynjum taki þátt í sem flestum verkum en það á ekki að vera á kostnað hæfileikanna. Hæfileikarnir eru það sem skilar okkur árangri og það þarf að styrkja stöðuna þannig að hæfileikar allra þróist í þá átt að þeir nýtist þeim betur en ella við að vinna úr því sem fyrir liggur og þeir vilja leggja áherslu á í sínu lífi, virðulegi forseti.