136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar kostnaðarhluta þessa máls liggur það þannig að flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru úr öllum flokkum á Alþingi og er þverpólitísk samstaða um málið. Því er hins vegar vísað til fjáraukalagagerðar ellegar fjárlagagerðar fyrir næsta ár að finna fjármagn til verkefnisins. Það verður að teljast eðlileg afgreiðsla miðað við aðstæður í samfélaginu og miðað við að það eru kosningar eftir mánuð að gera það með þessum hætti. Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, sem ég vona að verði einróma, á hinu háa Alþingi, geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra, hver sem það verður, taki mið af vilja Alþingis og fylgi því eftir við gerð fjáraukalagatillagna ellegar fjárlagatillagna fyrir árið 2010. Ég hygg að við séum sammála um að í slíkri aðgerð sé hægt að fá mikið fyrir peningana, eins og þar stendur, það þurfi engar býsna háar upphæðir til þess að koma af stað skilaboðum eða koma skilaboðum á réttan stað.

Hvað hina spurninguna varðar, um umsögn Alþýðusambandsins, skil ég hana þannig, og ég vænti þess að aðrir nefndarmenn skilji hana eins, að það sé einfaldlega eðlileg ábending um að Jafnréttisstofa hafi samráð við aðila, hvort sem þeir eru í verkalýðshreyfingunni, innan stéttarfélaganna eða félagasamtaka eins og Kvenréttindafélagsins og Femínistafélagsins, um framkvæmd svona átaks og að þessir aðilar verði kallaðir til við undirbúning. Enda hygg ég að það séu í raun eðlileg vinnubrögð og get ekki annað séð en að það væri eitt það fyrsta sem gerðist þegar Jafnréttisstofa færi í þá vinnu.