136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[19:59]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Við fjölluðum um málið og fengum á okkar fund Guðrúnu Þorleifsdóttur frá iðnaðarráðuneyti ásamt því sem okkur bárust nokkrar umsagnir um málið. Þessum endurgreiðslulögum var síðast breytt árið 2006. Upphaflega endurgreiðsluhlutfallið var 12% og það var síðan hækkað í desember 2006 úr 12% í 14%. Með þessu frumvarpi leggjum við til að gengið verði enn lengra og að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar á Íslandi verði hækkað úr 14% í 20%. Ekki er um aðrar breytingar á þessum lögum að ræða.

Þá er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að þeir sem fengið hafa vilyrði fyrir endurgreiðslu fyrir gildistöku laga þessara eigi þess kost að sækja um aftur eftir að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað ef framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis er ekki enn hafin þegar þessi lög verða samþykkt. Markmið breytinganna er að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum og laða að fleiri erlend verkefni.

Nefndin telur mjög mikilvægt að efla kvikmyndagerð á Íslandi og eðlilegt að horft verði til hennar á næstunni þar sem verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og jafnframt eru þau mikilvæg jákvæð landkynning sem getur skilað auknum fjölda ferðamanna til landsins. Það liggur fyrir að í samanburði við önnur lönd er endurgreiðsluhlutfallið hér á landi of lágt og til að mynda má nefna að á Írlandi sem hefur staðið framarlega í þessum efnum er endurgreiðsluhlutfallið allt að 28%. Breytingin í desember 2006 þegar hlutfallið var hækkað úr 12% í 14% hefur ekki náð að laða að fleiri erlend kvikmyndaverkefni eins og vonast var til.

Það varð talsverð umfjöllun í nefndinni um það hvernig fyrirkomulagi á þessum greiðslum væri háttað og því ákváðum við að draga það saman í nefndarálitinu. Í núgildandi lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar er kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta endurgreiðslu samkvæmt lögunum og hvert umsóknarferlið er. Eitt af skilyrðum laganna er að senda skal umsóknir til iðnaðarráðuneytis áður en framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hefst. Í framkvæmd hefur aldrei verið vikið frá þessu skilyrði, og umsóknum sem berast eftir að framleiðsla er hafin er undantekningarlaust hafnað.

Næsta stig í ferlinu er að nefnd sem skipuð er fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð fer yfir umsóknina og metur hvort öll skilyrði laganna eru uppfyllt. Í framhaldinu er gerð tillaga til iðnaðarráðherra um afgreiðslu málsins. Teljist öll skilyrði laganna uppfyllt gefur iðnaðarráðuneytið út vilyrði fyrir endurgreiðslu. Í vilyrðinu kemur fram að endurgreiðslufjárhæð sé ekki greidd út fyrr en framleiðslu kvikmyndaverkefnis er lokið og uppgjör og ársreikningur liggja fyrir. Endurgreiðslufjárhæðin er því aldrei greidd út fyrr en uppgjör liggur fyrir og hin sérstaka endurgreiðsla er oft í reynd síðasti liður í uppgjörsferlinu vegna framleiðslu kvikmyndar.

Samkvæmt rannsóknum sem kynntar voru fyrir nefndinni og unnar hafa verið fyrir iðnaðarráðuneytið á áhrifum endurgreiðslnanna á ríkissjóð, fyrst af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2006 og af Fjárfestingarstofu á þessu ári, er talið að ríkissjóður beri ekki byrði vegna endurgreiðslnanna og er þar horft til þess að skatttekjur ríkissjóðs eru samkvæmt þessum rannsóknum að öllum líkindum meiri en sem nemur endurgreiðslunum. Telja verður að þær tekjur sem ríkið hefur af framleiðslunni falli að mestu til á framleiðslutímanum í gegnum staðgreiðslu launa og óbeina skatta, svo sem virðisaukaskatt af aðföngum til framleiðslunnar.

Talsverð umræða spannst í nefndinni um að í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kemur fram að vegna halla á ríkissjóði muni að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum. Nefndin telur orðalagið óheppilegt vegna þess að það gefur til kynna að reiknað sé með halla á ríkissjóði vegna endurgreiðslnanna. Í því samhengi bendir nefndin á að ef horft er til þeirra skatttekna sem skapast með aukinni veltu vegna kvikmyndaverkefna er ekki rétt að líta á endurgreiðslurnar eingöngu sem viðbótarútgjöld. Þegar um er að ræða stór verkefni getur tíminn frá útgáfu vilyrðis og fram til útborgunar endurgreiðslunnar verið á bilinu 1–2 ár eða jafnvel lengri. Ríkissjóður ætti því að hafa fengið til sín stærstan hluta skatttekna vegna framleiðslunnar þegar til endurgreiðslu kemur.

Nefndin telur að sú ráðstöfun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu geti orðið veruleg lyftistöng fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og skapað fleiri sóknarfæri á þessu sviði. Nefndin bendir á mikilvægi þess að nýta öll úrræði í landinu sem geta fjölgað störfum og aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar og teljum við þetta mál svo sannarlega vera eitt þeirra og leggjum til að frumvarpið verði samþykkt. Við gerum engar tillögur til breytinga á því enda málið einfalt og skýrt.

Eygló Harðardóttir og Grétar Mar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita sú er hér stendur, Katrín Júlíusdóttir, formaður og framsögumaður, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Helgi Hjörvar og Kristrún Heimisdóttir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni, þær Björk Guðjónsdóttir, Herdís Þórðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, rita undir álitið með fyrirvara sem þær munu án efa gera grein fyrir.

Mig langar í lokin, virðulegi forseti, til að koma inn á það að fyrsta árið sem greiddir voru út styrkir vegna þessara laga var 2001 og það ár fengust tveir styrkir greiddir. Þeir geta verið æðimismunandi. Það er ánægjulegt að segja frá því að á síðasta ári var þessi fjöldi styrkja orðinn 12. Þrátt fyrir að jafnmörg verkefni hafi verið styrkt og raun ber vitni og gerð er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu eru eingöngu tvö þeirra erlend. Við vonumst til að með þessum lögum getum við örvað þessa starfsemi, laðað fleiri erlend verkefni hingað til lands og skapað gjaldeyristekjur.

Það er töluverð samkeppni á milli landa og jafnvel fylkja og borga um heim allan til að fá erlenda framleiðendur til að taka upp hjá þeim kvikmyndir, sjónvarpsefni og fleira myndefni, eins og t.d. auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Eins og ég sagði áðan er ástæðan fyrir því að við viljum fá þessi verkefni hingað sú að þetta skapar mjög fjölbreytt störf og hefur í för með sér fjölbreytta starfsemi. Sömuleiðis fylgja gjaldeyrir og gríðarleg jákvæð landkynning. Þau ríki sem eru með þessar ívilnanir, hvort sem það eru fylki í Kanada eða Bandaríkjunum eða annars staðar, hafa áttað sig á þessu.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjárfestingarstofu eru helstu samkeppnislönd Íslands á þessu sviði þau lönd sem bjóða upp á svipaðar aðstæður og finnast hér á landi, þá helst snjó, jökla, græn tún, dali og mikla víðáttu án þess að endilega séu mannvirki í bakgrunni. Fleiri atriði hafa þó áhrif, t.d. ívilnanakerfi viðkomandi lands sem og verð og framboð á aðföngum og þjónustu. Það er óhætt að fullyrða að íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfið sem við erum að breyta, þótt bara örlítið sé, hefur það fram yfir ýmis önnur kerfi að vera mjög einfalt í sniðum. Það jákvæða sem hefur líka gerst hér á undanförnum árum er að mikil þekking á kvikmyndagerð og þjónustu henni tengdri hefur skapast hér á landi á undanförnum árum. Í þessu felast gríðarleg verðmæti sem ásamt íslenskri náttúru eiga að geta skapað okkur sóknarfæri á sviði kvikmyndagerðar. Það er von mín að svo verði og að þetta góða mál eigi eftir að renna ljúflega í gegnum þingið og verða þessum mikilvæga og stóra iðnaði til framdráttar, ná að örva hann og lokka hingað erlenda aðila til upptöku kvikmynda.