136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:09]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Breytingin er sú að hlutfall endurgreiðslu framleiðslukostnaðar kvikmyndagerðar á Íslandi sem heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði verði hækkað úr 14% í 20%. Markmiðið með breytingunni er að gera Ísland samkeppnishæfara gagnvart kvikmyndaiðnaði í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í Evrópu.

Þeir sem veittu nefndinni umsagnir um málið gerðu ekki athugasemdir heldur vonuðu að frumvarpið yrði samþykkt og töldu að breytingin gæti orðið mikil lyftistöng fyrir kvikmyndaiðnað á Íslandi. Þeir sem að þessu máli koma og tengjast kvikmyndaiðnaði hér á landi virðast á einu máli um að nauðsynlegt sé að gera Ísland samkeppnishæft við önnur lönd á þessu sviði sem við höfum ekki verið fram að þessu og þess vegna hafi lítið verið um að erlendir aðilar hafi tekið upp kvikmyndir eða sjónvarpsþætti hér á landi á undanförnum árum.

Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara líkt og hv. þm. Herdís Þórðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Fyrirvarinn lýtur að því að hvorki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Eins og segir í umsögn fjármálaráðuneytisins má að einhverju marki búast við að skatttekjur gætu komið af framleiðslunni á móti en vegna mikils halla á ríkissjóði muni að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum. Í því felst fyrirvarinn, þ.e. að til lántöku þurfi jafnvel að koma.

Í nefndarálitinu er vikið að þessu áliti fjármálaráðuneytisins og orðalagið talið óheppilegt vegna þess að það gefur til kynna að reiknað sé með halla á ríkissjóði vegna endurgreiðslnanna en ekki sé rétt að líta á endurgreiðslurnar eingöngu sem viðbótarútgjöld. Miðað við það ferli sem rakið er í nefndarálitinu ætti ríkissjóður að vera búinn að fá til sín stærstan hluta skatttekna vegna framleiðslunnar þegar til útborgunar kemur. Á þeim forsendum sem í nefndarálitinu er lýst teljum við okkur geta stutt frumvarpið.

Þar sem ég geri ráð fyrir að frumvarpið nái fram að ganga og verða að lögum tel ég að það muni án efa hafa jákvæð áhrif á kvikmyndaiðnað hér á landi en hér hefur skapast mikil þekking á þessu sviði og vonandi mun frumvarpið hafa þau áhrif sem ætlast er til, að erlend kvikmyndafyrirtæki sjái sér hag í því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni hér á landi.

Á árinu 2005 var á vegum bandarísks kvikmyndaframleiðanda tekin upp stórmynd á Reykjanesi. Áhrifin á Reykjanesi vegna þessa voru umtalsverð, það umtalsverð að ekki fór fram hjá nokkrum manni, a.m.k. ekki í Reykjanesbæ, að mikið var umleikis. Allt upp í 1000 manns tóku þátt í verkefninu á einn eða annan hátt. Áhrif á þjónustugreinar á svæðinu voru umtalsverð, hótelin voru vel nýtt á þeim tíma sem upptökur stóðu yfir og veitingastaðir sáu fram á aukna veltu. Þeir sem gæta öryggis og selja slíka þjónustu voru þátttakendur og jafnvel björgunarsveitir á svæðinu fengu verkefni við framleiðslu kvikmyndarinnar og það skaut styrkari stoðum undir starfsemi þeirra á þeim tíma. Fyrirtækið sem að þessu verkefni stóð þurfti bílaleigubíla, eldsneyti og ýmsa aðra þjónustu sem í boði var á Reykjanesi. Þar að auki var nauðsynlegt að semja við landeigendur á Reykjanesi og ekki veit ég til annars en að landinu þar sem upptökur áttu sér stað hafi verið skilað aftur án nokkurra eftirmála.

Ég get því fyllilega tekið undir það að verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi innan sjálfs kvikmyndageirans, auk þess sem slík verkefni eru vel til þess fallin að styrkja innviði ýmissa annarra þjónustugreina. Hins vegar taka verkefni af þessum toga mislangan tíma og í því tilfelli sem ég hef gert að umræðuefni var sá starfsmaður sem lengstu ráðninguna fékk aðeins á launaskrá í um 100 daga.

Til kvikmyndaverkefnisins sem hér um ræðir voru á árinu 2005 áætlaðar 80 millj. bandaríkjadala. Þetta var nokkuð stórt verkefni á þeim tíma, auk þess sem enginn vafi leikur á því að umtalsvert fjármagn varð eftir í samfélaginu. Margt af því fólki sem tók þátt í verkefninu leit á þátttökuna sem ævintýri og spennandi reynslu sem vonandi á eftir að nýtast betur ef erlend stórfyrirtæki í kvikmyndaiðnaði sjá sér nú hag í því að koma hingað til lands með verkefni eða taka þátt í verkefnum hér á landi sem Íslendingar hafa frumkvæði að. Jafnvel er mögulegt að íhuga hvort það borgi sig fyrir okkur Íslendinga að gera beinlínis út á þessi mið eins og margar þjóðir í kringum okkur hafa gert á síðustu árum. Náttúra Íslands er stórbrotin. Þeir sem hingað koma þurfa aðeins að vita að við ráðum við allt sem upp á getur komið í kvikmyndaframleiðslu — nema veðrið. Það getur auðvitað verið hamlandi fyrir kvikmyndaiðnaðinn í einhverjum tilvikum.

Hér á landi byrjuðu stórhuga aðilar með þekkingu á kvikmyndaiðnaði að hugsa stórt á þessu sviði fyrir ekki svo löngu síðan en líkt og með margt annað sem í bígerð var þegar bankahrunið átti sér stað hefur hægt á áformum í þessa átt eða þau dottið alveg upp fyrir. Með þessum breytingum er jafnvel skapaður nýr grunnur til að hugmyndir á þessu sviði geti byggst upp að nýju og jafnvel orðið umfangsmikil atvinnugrein hér á landi í framtíðinni.

Kvikmyndagerð hér á landi hefur byggst upp og áunnið sér alþjóðlegar viðurkenningar og virðingu á síðustu árum sem styður það að erlend fyrirtæki á þessu sviði ættu nú að horfa hingað til lands eftir fagþekkingu og þjónustu og ekki síður til þess að fá að kvikmynda í okkar stórbrotnu náttúru. Hver einasta kvikmynd sem tekin er upp hér á landi er gríðarleg auglýsing fyrir land og þjóð og vekur áhuga á ferðalögum til Íslands sem er gott fyrir ferðaþjónustuna og gjaldeyrisskapandi. Það er ekki auðvelt að meta til fjár öll þau áhrif sem ein kvikmynd framleidd hér á landi getur haft.

Þrátt fyrir þann fyrirvara sem ég set við nefndarálitið lít ég svo á að náist þau markmið sem hér er stefnt að geti breytingin haft þau áhrif að verða atvinnu- og gjaldeyrisskapandi fyrir þjóðarbúið og þess vegna er ekki hægt að vera andvígur málinu við þær aðstæður sem við búum við hér á landi. Við þurfum á því að halda að bæta atvinnuástandið eins og sakir standa og ég mun styðja þetta frumvarp, virðulegi forseti.