136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að dagsverkið sé orðið býsna drjúgt á Alþingi í dag. Við erum komin að 16. lið í dagskrá og að máli sem, eins og síðasti ræðumaður ítrekaði vel, skiptir stóran hóp manna, sérhæfðra einstaklinga á sviði kvikmyndagerðar, mjög miklu máli auk þess sem þessi aukning á niðurfellingu getur skilað afleiddum störfum og mun meiri tekjum í ríkissjóð en úr honum fara til endurgreiðslunnar.

Ég renndi augum yfir dagskrá fundarins og ég get ekki stillt mig um að geta þess hér, herra forseti, áður en ég segi örfá orð um 16. dagskrármálið að okkur hefur tekist í dag frá því um kl. 3 eða kannski var hún að verða hálffimm, fimm þegar umræður um dagskrána loksins hófust, að fara í gegnum almennu greiðsluaðlögunina, við höfum afgreitt málefni aldraðra, við höfum fest í sessi hluta atvinnuleysistrygginga, með Bjargráðasjóði erum við að tryggja stöðu bænda og áburðarkaup. Það er verið að fjölga þeim sem fá listamannalaun, það er verið að setja takmarkandi reglur um ábyrgðarmenn og það er verið að koma í veg fyrir undanskot opinberra gjalda í skattaskjól. Að öllum öðrum málum ólöstuðum sem ég vildi vekja athygli á tel ég að dagsverkið sé orðið æðidrjúgt og er þó nokkuð ótalið, enn eru tveir liðir á dagskrá þessa fundar þegar þessu máli lýkur.

Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi eins og fram hefur komið. Til stendur að hækka úr 14% í 20% endurgreiðslu á heildarframleiðslukostnaði við gerð kvikmynda í landinu en eins og fram hefur komið er endurgreiðsluhlutfallið hér á landi talið of lágt. Það var hækkað fyrir nokkrum árum úr í 12% í 14% en hafði ekki tilætluð áhrif. Því er lagt til að auka það nú enn svo nemur tæpum helmingi, úr 14% í 20%. Markmiðið er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart öðrum nálægum og sambærilegum ríkjum og laða að fleiri erlend verkefni. Það er til mikils að vinna eins og hér hefur verið bent á.

Ég get tekið undir það sem hv. formaður iðnaðarnefndar sagði áðan og vitnaði í nefndarálitið hvað varðar orðalag í umsögn fjármálaráðuneytisins en af orðalaginu má skilja að vegna halla á ríkissjóði muni að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum, sem líklega er satt, en það er alls ekki svo í þessu tilviki. Þvert á móti er eðlilegt að ekki sé gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna lögfestingar þessa frumvarps, enda hefur komið fram að afleiddar tekjur af þessari starfsemi geta skilað allt að þreföldum styrkjunum í ríkissjóð og það veitir svo sannarlega ekki af. Það er því ljóst, herra forseti, að lögfesting þessarar hækkunar endurgreiðslunnar mun ekki kosta útgjöld úr ríkissjóði heldur þvert á móti auka skatttekjurnar, bæði í staðgreiðslu af atvinnutekjum þeirra sem við þennan kvikmyndaiðnað og við kvikmyndirnar starfa en einnig af óbeinum sköttum af alls kyns þjónustu, mat og gistingu. Það er gríðarlega mikilvægt skref ef vel tekst til eins og atvinnuástandinu er háttað í landinu.

Mig langar til að nefna hér eitt lítið dæmi vegna þess að í bígerð er gerð enn einnar stórmyndarinnar, íslenskrar myndar undir leikstjórn Baltasars Kormáks, sem bandarískir framleiðendur eru að. Sú mynd mun gerast bæði á Íslandi og Írlandi og bandarískir framleiðendur þessarar myndar spyrja eðlilega af hverju ekki sé rétt að taka alla myndina upp á Írlandi þar sem endurgreiðslan er tvöföld á við það sem hér er. Ég tel að lögfesting frumvarpsins og þessi hækkaða endurgreiðsla geti í þessu tilviki breytt verulega miklu og orðið til þess að möguleikar Íslands til að fá kvikmyndagerðina á þessari mynd hingað til lands séu stórauknir.

Ég vil benda á að í máli hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur áðan kom fram að kostnaðaráætlun vegna einnar stærstu erlendu myndar sem hér hefur verið framleidd og var tekin 2006 á Suðurnesjum, hefði verið um 80 millj. dollarar. Samkvæmt mínum upplýsingum voru tökudagar í þeirri kvikmynd, sem er ein sú stærsta sem hér hefur verið gerð, 37. Til samanburðar erum við að tala um fjóra mánuði í beinum tökum á þeirri mynd sem ég nefndi áðan sem þýðir að hún er þrefalt til fjórfalt umfangsmeiri en ameríska stórmyndin sem hv. þingmaður nefndi. Það er eftir miklu að slægjast hér, herra forseti, og mikilvægt að styðja við kvikmyndagerð í landinu.

Það er ánægjulegt til þess að vita að nú hefur verið flutt hingað heim sýning um sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Á háaloftinu í Þjóðmenningarhúsinu, sem fagnaði 100 ára afmæli sínu á laugardaginn var, var opnuð sýning þar sem raktar eru allar íslenskar kvikmyndir í 105 ára kvikmyndasögu Íslands en fyrsta íslenska kvikmyndin rekur sig aftur til ársins 1904. Á loftinu í Þjóðmenningarhúsinu má sjá í fullri lengd fleiri tugi þessara mynda auk þess sem unnt er að sjá myndbrot af mörgum myndum til viðbótar á tilteknum tímabilum sem íslensku kvikmyndasögunni er skipt niður í. Það var gaman og ánægjulegt að vera við opnun þessarar sýningar á laugardaginn og það var greinilegt að listamenn og þeir sem vinna við kvikmyndaiðnaðinn í landinu fylgjast grannt með því sem gert er á Alþingi og hvöttu eindregið til þess, þeir sem ég heyrði í þar, að þetta frumvarp fengi skjótan framgang og eins reyndar frumvarpið sem var fyrr á dagskrá í dag um listamannalaunin.

Það er gott að hafa hlustað á talsmenn Sjálfstæðisflokksins hér því að það hefur sýnt sig í þessari umræðu að meiri samstaða er um þetta mál en nefndarálitið gefur til kynna en þar skrifuðu hv. nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd undir álitið með fyrirvara. Sá fyrirvari hefur verið skýrður hér og er ljóst að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, munu styðja þetta mál og er það vel.