136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir endurtekur hér orð sín sem hún flutti á bloggsíðu sinni 26. mars undir fyrirsögninni „Steingrímur J. passar auðvaldið.“ (Gripið fram í.) Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég vil ítreka úr þessum stól að hér er ekki um það að ræða að einhverjir fjármunir hafi farið úr ríkissjóði til þessara tveggja fyrirtækja. Það er hvorki verið að leggja þeim til né lána þeim nýtt fé. Hér er um að ræða uppgjör á skuld sem varð til í svokölluðum endurhverfum viðskiptum eða „repó“-viðskiptum smærri lánastofnana við Seðlabanka Íslands frá því fyrir hrun. En þessar minni fjármálastofnanir keyptu þá skuldabréf af gömlu bönkunum og veðsettu síðan sjálf bréfin aftur í Seðlabankanum.

Við hrunið urðu þessir pappírar verðlausir eins og allir vita og Seðlabankinn upphóf veðköll á þessi bréf. Mér er mjög minnisstætt hve hv. þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýndu það harðlega í þingsal.

Þau tvö fyrirtæki sem hér um ræðir skulda ríkissjóði vegna þessa 41 milljarð kr. en um miðjan febrúar sl. tók þáverandi ríkisstjórn og ríkissjóður þessi lán yfir og setti skuldabréf í Seðlabankann til að bjarga eiginfjárstöðu bankans. Var þetta tapað fé? Er þetta tapað fé? Kannski. En með því að breyta þessari kröfu í lán til sjö ára á lágum vöxtum, 2% vöxtum ofan á verðtryggingu er von til þess að ríkissjóður fái þessa peninga til baka, er von til þess að þeir ríflega 100 einstaklingar sem vinna hjá þessum fyrirtækjum haldi vinnunni, er von til þess að þessi fyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar. Það er heila málið. (Gripið fram í: Hvað með heimilin í landinu?)