136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra grípur til þessara ráðstafana gegn tveimur fyrirtækjum án þess að lækka eigið fé þeirra, án þess að lækka hlutafé þeirra setur hann þrjú önnur fyrirtæki á hausinn, Straum, SPRON og Sparisjóðabankann, sem voru með fjölda starfsmanna. Þar er ekki talað um að veita lánafyrirgreiðslu sem hér er talað um.

Fyrirgreiðslan. Ég mundi segja að gegn svona veðum ætti maður að tala um 15–25% ávöxtunarkröfu því að þetta eru handónýt veð. Við ættum að tala um 35% og upp í 50% afskriftir af þessum skuldum sem er verið að gefa þessum fyrirtækjum, þannig að fyrirtækið VBS sem er með 2 milljarða í eigið fé fær a.m.k. 10 milljarða gefins og hlutafé í fyrirtækinu er ekki skrifað niður eins og maður hefði talið eðlilegt að einhverju leyti. Ég hlýt að gagnrýna þetta mjög mikið og á sama tíma eru gerð þau mistök sem sumir kalla að setja önnur fyrirtæki í gjaldþrot.

Þessi fyrirtæki eru svo í samkeppni við MP Verðbréf sem voru að kaupa SPRON og buðu meira að segja á móti þeim með þennan styrk, þannig að hæstv. fjármálaráðherra er líka að skemma samkeppni. En það skyldi nú ekki vera að það sé vegna þess að Saga Capital er í kjördæmi hæstv. ráðherra?