136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég kem í þessa umræðu fyrst og fremst til að mótmæla því sem hér er sagt, að það sé ekkert verið að gera fyrir heimilin í landinu vegna þess að það er einfaldlega ekki satt. Það vita hv. þingmenn sem hér koma og halda þessu fram. Vitaskuld getum við rætt lengi um það hvort gert sé nægilega mikið. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðun á því. En það er rangt að halda því fram og ósanngjarnt með öllu að það sé ekkert verið að gera fyrir fjölskyldurnar í landinu, að það sé ekkert verið að gera fyrir heimilin í landinu.

Við höfum verið að afgreiða frumvörp, m.a. um greiðsluaðlögun sem hér hefur verið vakið máls á og sagt að það séu ekki nema 100–200 einstaklingar sem mundu njóta góðs af því. Það kom fram í umræðum bæði í allsherjarnefnd þar sem málið var til umfjöllunar og sömuleiðis í umræðum í þingsal að það voru gamlar tölur sem verið var að notast við í greinargerð með frumvarpinu sjálfu, og af hálfu nefndarinnar kom fram að þetta yrðu miklu, miklu fleiri einstaklingar, sennilega tíföld sú tala sem um væri að ræða. Það er því rangt að halda þessu fram.

Við höfum verið að ræða hér og fjalla um að hækka vaxtabætur, mál sem efnahags- og skattanefnd hefur verið með til umfjöllunar eftir frumvarp frá fjármálaráðherra. Kemur það sér ekki vel fyrir heimilin í landinu? Hvernig geta menn komið hér og sagt (Gripið fram í.) að það sé ekkert verið að gera þegar það er beinlínis rangt? Menn geta að sjálfsögðu komið hér og sagt að það sé ekki gert nóg eða að ekki séu gerðir réttir hlutir og þá skulum við ræða það. En það er ekki sanngjarnt að halda þessu fram og ekki þeim til sóma sem gera það.

Ef það er skoðun gervalls Framsóknarflokksins að ekki sé verið að gera neitt fyrir fjölskyldurnar í landinu þegar Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir að hann ætlaði að styðja þá ríkisstjórn sem hér situr til allra góðra verka, ef það er skoðun Framsóknarflokksins að (Forseti hringir.) það sé ekkert verið að gera þá er spurningin hvort hann ætli ekki bara að standa að vantrausti á þessa ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem í hans augum er ekkert að gera fyrir fjölskyldurnar í landinu. (Gripið fram í.)