136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætlaði eiginlega að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skildi við hann þegar hann var að ræða um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Það er reyndar þannig að afar margir eru sammála um að þessi ríkisstjórn hafi ekki gert nægilega mikið fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það erum ekki bara við sem erum í stjórnarandstöðu sem erum þeirrar skoðunar. Sú skoðun hefur, eins og kom fram hér í umræðunni, komið fram af hálfu Framsóknarflokksins (Gripið fram í.) og Framsóknarflokkurinn er í þeirri undarlegu stöðu að segjast vera í stjórnarandstöðu en er samt í flestum málum einhvers konar fylgiflokkur eða fylgihnöttur ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar sagði formaður Framsóknarflokksins í viðtali í sjónvarpinu á dögunum — og ég tek það fram að formaður Framsóknarflokksins hefur verið í sérstöku sambandi við forustumenn ríkisstjórnarinnar og átt með þeim fundi og fengið upplýsingar um þau mál sem þar eru í deiglunni, þannig að hann ætti að þekkja betur til málefna ríkisstjórnarinnar en venjulegir stjórnarandstæðingar — en hann sagði í viðtali við sjónvarpsfréttir 24. mars síðastliðinn um verkefni ríkisstjórnarinnar:

„Það vantar þau þingmál sem þessi stjórn var mynduð um. Sérstaklega vantar róttækari aðgerðir til að bregðast við efnahagsvandanum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti síðan alvarlegum vandamálum, bæði í efnahags- og atvinnumálum, sem við er að glíma og endaði viðtalið á orðunum:

„Við þessar aðstæður er spurningin ekki sú hvernig gangi að koma í gegn ýmsum almennum málum sem vel geta beðið fram yfir kosningar. Spurningin er sú hvers vegna ekki er búið að koma með þessar bráðaaðgerðir til að taka á vandanum.“

Síðan þetta viðtal var flutt hefur ekki komið neitt nýtt mál inn í þingið frá ríkisstjórninni. Þetta var sá dómur sem formaður Framsóknarflokksins sem fylgist sérstaklega vel með málefnum ríkisstjórnarinnar felldi um störf hennar á þessu sviði.