136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af þeim málum sem eru á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Það tókum við í allsherjarnefnd að okkur að flytja. Það er að koma til 1. umr. á eftir þannig að það mál er þó alla vega komið hér inn.

Varðandi það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan þá vil ég taka undir með honum. Ríkisstjórnin hefur gert margt og það er ekki sanngjarnt að stilla málum þannig upp að ekki hafi verið gripið til aðgerða til að bregðast við vanda heimila í landinu. Varðandi umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum í dag þá er mikilvægt að það komi fram að gamlar tölur sem var vissulega að finna í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun miðuðu við að mjög fáir mundu nýta sér þetta úrræði. En við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífi er auðvitað augljóst að fleiri munu nýta sér það.

Það er mjög mikilvægt að við höldum vel utan um þessi úrræði og vísum veginn áfram fyrir fólk út úr þeim erfiðleikum sem það er í núna. Þessi úrræði saman og öll þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur verið að setja fram vegna þeirra erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir núna mynda eina heild og þau eiga að gera flestum kleift að komast yfir brú, að við gefum fólki einhvers konar brú yfir það ólgurót sem fram undan er þannig að fólk komist heilu og höldnu í gegnum þá erfiðleika sem fram undan eru. Þeir sem missa atvinnu, þeir sem verða fyrir verulegu tekjutapi nái þannig að halda lánum sínum í skilum, að þeir nái að halda húsnæði sínu og þeir missi ekki fótfestu í lífinu þó að bjáti á. Það hlýtur að vera grundvallarmarkmið okkar, það hlýtur að vera forgangsverkefni okkar vegna þess að við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila, við höfum ekki digra sjóði að ganga í til þess að sækja mikla peninga og dreifa þeim vítt og breitt um samfélagið við þessar aðstæður. (Gripið fram í.) Við verðum að horfast í augu við það að (Forseti hringir.) við þurfum að nýta peningana þar sem mestu varðar. Þess vegna skiptir líka aukið framlag til vaxtabóta gríðarlega (Forseti hringir.) miklu máli.