136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti því að ríkisstjórnin haldi fyrirtækjum gangandi með ódýrum lánum en ég er á móti mismunun. Ég er á móti því að ríkissjóður fari inn í fyrirtæki án þess að krefjast eignarhlutar eða niðurskriftar á hlut fyrri eigenda. Það er það sem ég geri kröfu um að ríkissjóður geri. Að hann krefjist þess að eignast hlut í fyrirtækinu og að eignarhluti fyrri eigenda verði niðurskrifaður ef ekki niður í núll þá alla vega töluvert mikið.

En á sama tíma er sú mismunun að Straumur, sem ég hef svo sem enga sérstaka samúð með, var í þeirri stöðu að vera með góða eiginfjárstöðu. Hann vantaði bara lausafé og fór á hausinn af því hann vantaði lausafé. Ég er viss um að smáinnspýting frá ríkissjóði með þessum vöxtum gegn því að eignast fyrirtækið nánast alfarið hefði getað bjargað Straumi. Svo ég nefni nú ekki SPRON og Sparisjóðabankann þar sem menn fullyrða að gert hafi verið samkomulag við kröfuhafa og að það samkomulag hafi verið eyðilagt með aðgerðum ríkisvaldsins. Þar hefði niðurskrift á eignarhlut eigenda og breyting á kröfum ríkissjóðs og eignarhlutur ríkissjóðs í fyrirtækinu getað breytt því að það góða fyrirtæki lokaði og þeir góðu starfsmenn sem voru hjá SPRON hefðu ekki misst vinnuna og hefðu ekki farið á vergang.

Ég gagnrýni þessa mismunun á milli fyrirtækja, að ég tali nú ekki um þegar maður lítur á auðvaldið gagnvart almenningi og verkafólki í landinu. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt hvernig menn gera við þessi tvö fyrirtæki, að hlutafé eigendanna er ekkert niðurskrifað.