136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[14:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og hér var farið með frasana úr fjallræðunni miklu sem flutt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina þar sem Messías færði fram boðskapinn og þingfulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins klöppuðu fyrir lausnara sínum. (Gripið fram í: Þetta er málefnalegt.)

Sjálfstæðisflokkurinn sýndi á spilin á landsfundi sínum um helgina. Hann sýndi að hann hefur engin svör. Hann getur ekki veitt atvinnulífinu sem er að kafna undan gjaldeyrishöftum (Gripið fram í.) og háum vöxtum svör um hvernig komast á út úr því öngstræti. Þvert á móti er haldið áfram með þann boðskap að skella í lás, halda landinu einangruðu, leita ekki nýrra leiða út úr þessari stöðu.

Það er engin leið einföld núna til að lækka vexti eða til að létta af gjaldeyrishöftum. Grundvallarforsenda til þess að það sé hægt með skilvirkum hætti er auðvitað aðildarumsókn að Evrópusambandinu. [Hlátrasköll í þingsal.] En þá kjósa vinir okkar í Sjálfstæðisflokknum að loka augunum fyrir augljósum staðreyndum. (Gripið fram í.) Þeir gefa atvinnulífinu í landinu engin fyrirheit um það hvernig haga má hagstjórninni á næstu missirum. Þeir hafa enga peningamálastefnu til að bjóða þjóðinni upp á. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að þessi stjórnarandstöðuflokkur skuli treysta sér í kosningabaráttu með enga peningastefnu og enga stefnu í milliríkjaviðskiptum. Hann gat ekki markað stefnu um það hvernig taka ætti á endurreisn bankakerfisins. Hann gat ekki markað stefnu um það hvernig komast ætti út úr öngþveitinu. Hann sat verklaus í ríkisstjórn. Embættismannaliðið sem hann hafði raðað í kringum sig var líka verklaust. Hann hafði enga sýn um það hvernig fara ætti út úr þokunni og hann er enn þá fastur í þokunni með Messíasi sínum.