136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[14:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að þetta mál skuli vera komið svo langt að vera í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. vegna þess að hér er um gríðarlega mikilvægt og gott mál að ræða. Bæði er þetta mál atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi og getur jafnframt kallað á gríðarlega góða og mikla landkynningu ef vel tekst til.

Þannig er að við höfum í þó nokkurn tíma eða í nokkur ár búið við endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hér á landi upp á 12% og síðan frá árinu 2006 upp á 14%. Það hefur sýnt sig að þetta hefur ekki nægt vegna þess að ríki, sem við erum í samkeppni við um að fá stór verkefni, stórar kvikmyndir til upptöku, hafa boðið mun betri skattakjör og til að mynda hefur eitt af samkeppnisríkjum okkar, Írland, verið með allt að 28% endurgreiðslu. Þetta þýðir með öðrum orðum að við erum orðin samkeppnishæf á heimsvísu í þeim bransa að laða til okkar stór kvikmyndaverkefni sem eru gríðarlega mikil í umsvifum og eru atvinnuskapandi og skapa hér fjölbreytt, mikilvæg (Forseti hringir.) og góð störf fyrir utan gjaldeyristekjurnar sem þau geta aflað okkur og því styður (Forseti hringir.) Samfylkingin auðvitað þetta frumvarp.