136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[14:14]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir lýsa ánægju með að hér sé stigið enn eitt skref í sambandi við það að laða til Íslands kvikmyndagerðarfólk og er það mjög mikilvægt fyrir efnahagslíf okkar og hefur sýnt sig að skapar heilmikil umsvif. Þetta er eitt af þessum góðu málum sem Framsóknarflokkurinn byrjaði með, bara til að halda því til haga, (Gripið fram í.) og hefur svo þróast. Það var byrjað í 12% og svo farið í 14% og nú er það komið í 20%.

Af því að ýjað var að því áðan, og í raun er það rétt, að hér er um ákveðna ríkisstyrki að ræða þá er það nú þannig að ómögulegt er að láta þetta gerast nema Eftirlitsstofnun EFTA samþykki það, þannig að þetta er allt saman undir kontról.