136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum eins skilmerkilega og mögulegt er. Fyrir það fyrsta verður kostnaður ríkissjóðs ekki verulegur af þessu frumvarpi þar sem ekki er ætlast til mikilla útgjalda af hálfu ríkisins vegna þessa. Gert er ráð fyrir að úr ríkissjóði verði greiddur kostnaður umsjónarmanns sem verður 200.000 kr. að hámarki í hverju og einu tilviki. Þó á eftir að koma í ljós hversu mörg tilvikin verða.

Hvað þýðir þetta fyrir hvern og einn skuldara? Jú, ef við horfum á tilvik þar sem fólk býr við þær aðstæður að t.d. önnur fyrirvinnan hefur misst vinnuna eða eina fyrirvinnan hefur misst vinnuna og viðkomandi fjölskylda býr í hóflegu íbúðarhúsnæði kveður frumvarpið á um að unnt sé að fá greiðslubyrði lagaða að greiðslugetu í allt að fimm ár. Það þýðir í sjálfu sér að skapaðar eru forsendur fyrir því að fólk geti haldið húsnæði sínu í gegnum dýpsta öldudalinn og við þurfum ekki að horfa upp á fleiri nauðungarsölur, uppbrot fjölskyldna eða aðra slíka erfiðleika sem oft geta fylgt húsnæðismissi. Að loknu þessu fimm ára tímabili verði greitt fyrir því með aflýsingu veðsins sem er umfram verðmæti hússins að áhvílandi byrðar á húsinu séu í samræmi við greiðslugetu viðkomandi til lengri tíma litið. Þetta er eins einfalt og ég get haft það.