136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er í sjálfu sér lenging með ákveðinni tegund af niðurfellingu. Fyrst og fremst er um það að ræða að greiðslubyrðin er löguð að greiðslugetu skuldara. Það sem ekki er greitt af helst í skilum þannig að á það falli ekki dráttarvextir og þannig er ekki um að ræða að lánið safnist upp með sama hætti og ef um hreina lengingu væri að ræða. Afborganir sem ekki er greiðslugeta fyrir gjaldfalla ekki.

Að loknu tímabilinu er opnaður möguleiki til að létta veðum af eigninni umfram verðmæti hennar og þar með greitt fyrir því að það sem umfram er verði fellt niður. Sá stabbi fer þá inn í almenna greiðsluaðlögun og lúkning mála í þeirri almennu greiðsluaðlögun fer eftir greiðslugetu skuldarans samkvæmt frumvarpinu sem við samþykktum í gær. Það frumvarp felur í sér aðferðafræði og forsendur fyrir niðurfellingu þannig að hér er fyrst og fremst um að ræða að lánum á þessu tímabili sem getur verið allt að fimm árum er haldið í skilum. Þau safna ekki dráttarvöxtum, fólk greiðir í samræmi við greiðslugetu. Þegar komið er að lokum þessa fimm ára tímabils eru skapaðar forsendur fyrir því að það sem stendur út af verðmæti eignarinnar verði fellt inn í niðurfellingarferli, lækkunarferli sem er ferlið sem mælt er fyrir um í almennum greiðsluaðlögunarlögum. (GÞÞ: Kostnaðurinn?)

Það hefur ekki verið kostnaðargreint enda rennum við auðvitað við núverandi aðstæður nokkuð blint í sjóinn með það hversu margir munu lenda í þessu. Það fer eftir því hversu löng dýfan verður. Það fer eftir því hversu lengi þetta mikla atvinnuleysi varir. Það fer eftir því hversu fljótt fólk kemst aftur til vinnu. Það er mjög erfitt að spá fyrir um það (Forseti hringir.) en ég tel að kostnaði sé mjög stillt í hóf með þeirri grunnreglu að (Forseti hringir.) greiðslan verði miðuð við 200.000 kr. til umsjónarmanns.