136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Það er rétt sem fram hefur komið að forsaga málsins er frekar sérstök af því að upphaflega var í frumvarpinu um almenna greiðsluaðlögun, sem varð hér að lögum í gær, bráðabirgðaákvæði sem laut að veðlánum á íbúðarhúsnæði en ákveðið var að taka það bráðabirgðaákvæði út og skoða í nefndinni betur þessar veðkröfur almennt og flytja mál sem sneri sérstaklega að þeim. Þannig er forsagan að þessu máli. Ég vil líka undirstrika að mjög ánægjulegt var að finna þann samhug sem var í nefndinni um málið þar sem allir liðkuðu fyrir svo hægt væri að koma því áfram í þinglega meðferð. Þetta frumvarp hangir á málinu sem við afgreiddum í gær.

Frumvarpið er 13 greinar, margar þeirra eru frekar flóknar og svolítið langar og það er mjög sérstakt að þingnefnd flytji mál af þessu tagi. Hér í salnum situr hv. þm. Pétur Blöndal sem hefur margoft gagnrýnt það að þingið flytji ekki slík mál nema eftir beiðni frá ráðherrum. En það verður að segjast eins og er að ráðuneytið kom verulega að samningu þessa frumvarps og hæstv. ráðherra beitti sér líka og jafnframt réttarfarsnefnd. Það var ekki þannig að þingmenn sjálfir sætu og skrifuðu frumvarpið upp frá orði til orðs, alls ekki. Það var mikla aðstoð að fá við samningu frumvarpsins og má eiginlega segja að það hafi meira og minna verið samið í ráðuneytinu. Við flytjum það eigi að síður til að liðka hér fyrir og koma þessu á réttan kjöl eins hratt og hægt er.

Ég ætla ekki að grípa niður í einstakar greinar, virðulegur forseti, en heildartilgangur frumvarpsins er að reyna að tryggja virkara úrræði fyrir þann hóp sem er í greiðsluvanda. Þetta er stækkandi hópur og verið er að reyna að gefa einstaklingum möguleika á að endurskipuleggja fjármál sín með það að markmiði að þeir geti búið áfram í fasteign sinni ef þess er nokkur kostur. Það eru auðvitað ákveðin sjónarmið sem gilda varðandi lánveitingar og það er stjórnarskrárvarinn eignarréttur kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum skuldara. Það þarf því aðeins að huga að því eins og augljóst er, en takist vel til með svona lagasetningu er hægt að gæta hagsmuna bæði skuldara og kröfuhafa, enda geta þessir hagsmunir farið saman. Það er engum í hag, sem á veðkröfu, að skuldarinn fari í þrot og verði gerður gjaldþrota og allar kröfur falli þá bara niður og sá sem á kröfuna sitji uppi með húsnæðið. Það er ekki alltaf honum í hag að koma því þannig fyrir. Það geta því verið mjög sterk rök fyrir því að reyna að aðstoða skuldarann svo hann geti verið áfram í húsnæði sínu og greitt það sem hann getur tímabundið en síðan þurfi að skoða málin þegar þeim tíma lýkur. Hér er verið að stefna að greiðsluaðlögunarferli sem tekur til fimm ára.

Í 3. gr. eru tilgreind þau gögn sem sá sem ætlar í greiðsluaðlögun þarf að reiða fram. Í 4. gr. er svolítið farið yfir það með hvaða hætti héraðsdómari getur hafnað beiðni. Þar kemur fram að ef fjárhagur skuldara er slíkur að hann geti staðið í fullum skilum án greiðsluaðlögunar þá á að sjálfsögðu ekki að veita honum greiðsluaðlögun. Maður þarf að fara í gegnum ákveðið nálarauga til að geta fengið slíkt úrræði. Einnig á þetta við ef ljóst er að skuldaranum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu, eins og felst í 5. gr. í frumvarpinu. Viðkomandi má því ekki vera of vel staddur og heldur ekki of illa staddur, ef þannig má að orði komast. Það má heldur ekki veita skuldara greiðsluaðlögun gagnvart veðlánum ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Þeir sem hafa farið mjög óvarlega og illa að ráði sínu og hægt er að sanna að þeir gátu hvort eð er ekki staðið undir þeim lánum sem þeir voru að taka á sínum tíma geta ekki fengið þetta úrræði. Þetta úrræði á að vera má segja réttlætisúrræði, þ.e. ef eitthvað óvænt hefur komið upp á geta menn komist í gegnum þessi skilyrði og farið í greiðsluaðlögun. Það á ekki að hygla neinum sem hafa tekið rangar ákvarðanir heldur er það meira þannig að ef eitthvað óvænt hefur komið upp á — eins og er nú alveg ljóst með bankahrunið og efnahagsástandið eins og það er í dag, margt mjög óvænt er þar á ferð sem enginn gat séð fyrir — eiga einstaklingar rétt á því að fara í gegnum greiðsluaðlögunina.

Það er rétt sem kom fram hjá báðum þeim hv. þingmönnum sem hafa talað fyrr í umræðunni, Árna Páli Árnasyni og Ólöfu Nordal, að Seðlabankinn kom með upplýsingar til nefndarinnar sem við þurfum að skoða nánar. Það er frekar erfitt að gera sér grein fyrir hvað margir munu fara í gegnum þetta úrræði og þar af leiðandi er erfitt líka að gera sér grein fyrir kostnaðinum. Í frumvarpinu sem var samþykkt í gær, af því að það var aðeins gert að umtalsefni áðan, var talið að 100–200 manns mundu nýta sér það úrræði. Það kom strax fram í nefndinni að sú tala var algjörlega vanáætluð. Fram kom hjá þeim sérfræðingum sem við fengum til okkar að reikna mætti með að það yrðu a.m.k. tíu sinnum fleiri, 1.000–2.000 manns hvað varðar almenna greiðsluaðlögunarfrumvarpið. Það er því erfitt að henda reiður á því hvað margir munu nýta sér þetta úrræði.

Framsóknarmenn hafa talið mikilvægt að grípa til frekar róttækra aðgerða í efnahagsástandinu eins og það er núna og grípa til óvenjulegra aðgerða. Við höfum talað fyrir hinni svokölluðu 20% leiðréttingarleið, þ.e. að hægt væri að leiðrétta upp á 20% fyrir öllum þeim óvæntu uppákomum sem hafa átt sér stað síðan í október á síðasta ári. Vinstri grænir, a.m.k. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, frambjóðandi Vinstri grænna, hefur talað fyrir leið sem er í ætt við 20% leiðréttingarleiðina, þ.e. að hægt sé að fella niður 4 milljónir, upp undir 4 milljónir af húsnæðisskuldum. Seðlabankinn mat báðar þessar leiðir og taldi reyndar að 4 millj. kr. leiðin væri dýrari fyrir ríkissjóð en 20% leiðin, en við framsóknarmenn höfum viljað undirstrika að við gerum ráð fyrir að kröfuhafar afskrifi þannig að ríkissjóður og samfélagið allt á að bera hag af þeirri leið að lokum. Í stað þess að allir sogist niður í þessum efnahagsþrengingum verði leiðrétt um 20% fyrir þá sem bera lán svo við getum komið hjólum atvinnulífsins í gang aftur. Allir græða á því þegar upp er staðið og við getum haldið við störfum o.s.frv.

Ég verð að segja að ég fagna því sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði áðan um báðar þessar leiðir. Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að sópa svona tillögum út af borðinu. Það hefur hv. þingmaður, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, líka sagt og Vinstri grænir eru að hugsa á svipuðum nótum. Það er eiginlega bara, virðulegur forseti, Samfylkingin sem hefur meira eða minna skotið þessar hugmyndir niður og mér þykir það nokkuð miður að þeir í Samfylkingunni hafi gert það. Þeir hafa ekki viljað skoða þetta neitt frekar og telja að greiðsluaðlögun sé — eins og ég skil það — nægjanleg. Við höfum ekki talið að svo sé og verði 20% leiðin farin að lokum, sem margir segja að verði farin — hérna er bara verið að ströggla í einhvern tíma, þetta mun fara fram að lokum, þessi 20% leiðrétting — er ljóst að samt munu einhverjir þurfa á greiðsluaðlögun að halda. Þó að þetta mál fari hér í gegn útilokar það ekki að aðrar góðar hugmyndir, sem eru að margra mati mjög nauðsynlegar, verði afgreiddar með einhverjum hætti síðar.

Framsóknarflokkurinn stendur fyllilega á bak við þetta frumvarp eins og frumvarpið sem við afgreiddum í gær, þetta er svona fylgifrumvarp með því. Við vonum að það verði sem fyrst að lögum svo fólk geti farið að leita sér upplýsinga um hvort það passi inn í þessi skilyrði til að athuga hvort það geti þá frekar haldið húsnæði sínu ef það hefur greiðslugetu til þess að standa undir, a.m.k. hluta af skuldum sínum.