136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt til að bregðast við því sem fram kom í máli hv. þm. Birkis J. Jónssonar um EES-samninginn þar sem hann segir að með þeim lagaákvæðum sem hér hafa verið til umræðu og voru með lögunum frá því í nóvember sé verið að brjóta EES-samninginn, þá er rétt að geta þess og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þegar heimild var veitt til takmarkana á fjármagnshreyfingum við gildistöku laga nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, tilkynntu íslensk stjórnvöld að gripið væri til verndarráðstafana skv. 43. gr. EES-samningsins þar sem telja mátti að takmarkanirnar gengju gegn meginreglu 40. og 41. gr. EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði.“

Þessi ráðstöfun var tilkynnt aðilum EES-samningsins og það kom fram hjá fulltrúum utanríkisráðuneytisins á fundi nefndarinnar í kvöld að engar athugasemdir hefðu komið frá samstarfsaðilum okkar innan EES-samningsins við því að beitt væri ákvæðum 43. gr. EES-samningsins í þessu samhengi. Íslensk stjórnvöld, utanríkisráðuneytið, mundu að sjálfsögðu jafnframt tilkynna sömu aðilum um þær breytingar sem verið væri að gera nú til að hnykkja á þeim lögum sem sett voru í nóvember og það væri svo sem ekkert hægt að girða fyrir það að einhverjar athugasemdir kæmu í þetta skipti en það væru heldur engin teikn á lofti um að svo yrði.

Ég vildi hnykkja á þessu, virðulegi forseti, að það er ekki litið svo á að verið sé að brjóta EES-samninginn heldur er verið að beita verndarráðstöfunum í samræmi við 43. gr. þess samnings.