136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að skattyrðast við hæstv. fjármálaráðherra um ábyrgð einstakra flokka í þessu sambandi. Ég lýsti því í ræðu minni að við hefðum talið ákveðin skref nauðsynleg í haust og litið á það sem bráðabirgðaástand. Ég lýsti því að ég teldi að það væri miklu affarasælla að við færum í þá átt að reyna að létta af þessum gjaldeyrishöftum og reyndum að stuðla að þeim breytingum að það yrði unnt. Ég held að við hæstv. fjármálaráðherra getum í sjálfu sér verið sammála um það.

Ég minnist þess heldur ekki að hæstv. fjármálaráðherra eða flokkur hans hafi haft miklar efasemdir um þær reglur sem voru settar í nóvember. Ég minnist þess að í þeirri umræðu sem þá fór fram litu flestir svo á að þetta væri til bráðabirgða og menn lýstu almennt þeim vilja að það væri rétt að reyna að losa sig út úr því sem fyrst.

Varðandi skýrsluskil og þess háttar má vera að einhver bót verði af þeim reglum sem þarna er um að ræða. Ég tek hins vegar undir með félögum mínum í hv. efnahags- og skattanefnd, ég er efins um að það muni raunverulega hafa mjög mikil áhrif. Ég er ekki gamall maður en ég upplifði það á mínum unglingsárum að starfa nokkur sumur í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans þar sem maður var við það frá morgni til kvölds alla daga að færa pappíra á milli skjalaskápa og færa alls konar tölur inn í bækur sem enginn skoðaði. Ég held að á þeim tíma hafi menn akkúrat áttað sig á því að svona reglur voru til langframa óframkvæmanlegar og það skipti kannski ekki höfuðmáli hvaða skýrsluskil voru uppi í þeim efnum, það hafði ekki þau áhrif (Forseti hringir.) sem menn kannski ætluðu sér.