136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra kunni að mislíka að maður hafi við það athugasemdir held ég að menn ættu að hafa þolinmæði til að eyða nokkrum mínútum í þinginu í þau gjaldeyrishöft sem hér eru til umræðu.

Það er skelfilegt að þurfa að leiða í lög reglur sem þessar og enn verra er að frumvarp eins og það sem hér er til umfjöllunar þurfi að fara á slíkum ljóshraða í gegnum þingið eins og við erum að upplifa, með jafnmikilli hraðsuðu og lítilli umræðu og við verðum vitni að. Þá skiptir engu máli hvort það er núverandi ríkisstjórn sem flytur slíkt mál eða sú sem fyrir var. Það breytir því ekki að verklagið er ákaflega óheppilegt, sérstaklega þegar um svo mikilvæg mál er að ræða. Eins og komið hefur fram voru sett hér lög um gjaldeyrishöft, þau voru að mínu mati alveg skelfileg og þetta frumvarp bætir ekki stöðuna. Það er eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði: Það sér ekki á svörtu.

Ég hef reyndar ekki heyrt nægilega sannfærandi rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að klára þetta mál í kvöld. Hvað mundi gerast ef þetta frumvarp yrði ekki klárað strax? Hvað mundi gerast á morgun? Ég kalla eftir upplýsingum um það frá þeim sem flytja málið. Ég sat ekki sjálfur í nefndinni sem fjallaði um þetta mál á örskömmum tíma en mér skilst að þau svör sem fengust við spurningum eins og þeirri sem ég flutti hér fram hafi verið æðiloðin. Ef hægt er að setjast betur yfir það frumvarp sem hér er til umræðu væri mikið til vinnandi að gera það.

Ég hef miklar áhyggjur af því að með því fyrirkomulagi sem hér er mælt fyrir um og var upphaflega ákveðið fyrir áramót með því að setja á gjaldeyrishöft sökkvum við enn dýpra. Við sökkvum dýpra og dýpra í það fen sem við vorum þegar komin í og endum hér með gjaldeyriseftirlit eins og talað hefur verið um.

Þessi lög eru að mínu mati neyðarlög sem er ætlað að bregðast við veikingu krónunnar. Það er kannski ástæða til að fara aðeins yfir það að allur gjaldeyrir sem fer út úr landinu fer í gegnum íslenska gjaldeyrismarkaðinn, þ.e. innflutningur á vöru og þjónustu, vaxtagreiðslur til erlendra aðila o.s.frv. Hins vegar fer gjaldeyririnn í gegnum þrjá markaði, þ.e. íslenska gjaldeyrismarkaðinn, þennan opinbera, gráa markaðinn og síðan inn í gömlu bankana. Ef við byrjum aðeins á opinbera markaðnum fara flest félög í gegnum hann sem ekki vilja brjóta gjaldeyrislögin. Grái markaðurinn hefur verið virkur fyrir fyrirtæki frá því að lögin tóku fyrst gildi. Það hefur verið sagt að tveir innlendir fjárfestingarbankar hafi aðstoðað fyrirtæki með viðskipti sem ekki eru lengur starfandi í slíkum viðskiptum. Eftir að þeir lokuðu dró nokkuð úr þessu en samt virðast þau aukast jafnt og þétt aftur. Þriðji markaðurinn er síðan gömlu bankarnir en fyrirtæki sem eru skuldug þar vegna afleiðusamninga fá að afhenda myntirnar í stað þess að gera upp samningana í íslenskum krónum.

Með því að allur gjaldeyririnn sem fer út úr landinu fari í gegnum opinbera markaðinn — einungis hluti af þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið rennur þar í gegn — er augljóst að það er meiri eftirspurn eftir gjaldeyri en framboð og þar af leiðir að krónan veikist stöðugt.

Reyndar hafði Seðlabankinn frumkvæði að því að selja bankanum gjaldeyri í janúar og febrúar sem kom í veg fyrir veikingu krónunnar, en síðan þá hefur lítið sem ekkert komið frá Seðlabankanum. Seðlabankinn var gagnrýndur í vikunni af greiningardeildum bankanna fyrir þetta.

Að mínu mati væri besta lausnin við veikingu sú að lækka stýrivexti og lækka þar með vexti sem við erum að greiða erlendum aðilum. Við erum með höft á nánast öllu öðru.

Ég held að þau úrræði sem við erum að fjalla um hér virki að hluta til, þ.e. á gráa markaðinn sem ég nefndi áðan, en hins vegar er ekki ljóst hvort þau nái þeim tilgangi sínum að styrkja krónuna. Það er ekki ráðist á vandamálin, sem eru innstæður og skuldabréf erlendra aðila í íslenskum krónum og vaxtagreiðslur af þeim. Það gæti leitt til þess að við þyrftum alltaf að eltast við skottið á sjálfum okkur með því að bæta inn breytingum til að stoppa þennan leka. Það væri nærtækast að reyna að ná samkomulagi við eigendur þessara bréfa og innstæðna um hvernig leysa eigi vandann en ekki bara að ráðast á sjúkdómseinkennin.

Ég ætla ekki að fjalla mikið um tvöfalda gengið sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi og hv. þm. Bjarni Benediktsson einnig en svo virðist sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi algjörlega í veg fyrir að hægt sé að taka hér upp slíkt kerfi. Við þurfum að fá upplýsingar um það við nánari umræðu um þessi mál.

Aðalatriðið er að ég held að þetta frumvarp sem við ræðum hér leysi ekki þann vanda sem við eigum við að etja. Ég hef reynt að skýra það út að þetta frumvarp er að mínu mati miklu frekar viðbrögð við þeirri þróun sem hefur átt sér stað, seinvirk viðbrögð, plástur á sárið í stað þess að ráðist sé að rót vandans. Án þess að maður komi með einhverjar leiðir eða útlisti þær held ég, eins og aðrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að menn muni fara fram hjá þessum reglum eins og öðrum. Þetta er engin lausn á vandanum til frambúðar.

Mín skoðun er sú að þetta frumvarp sem við ræðum hér sé sönnun þess að ríkisstjórninni, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, hafi mistekist það verkefni að koma á stöðugleika í gjaldmiðilsmálum og létta á þrýstingnum sem er á krónunni. Það er viðurkennt í greinargerð með frumvarpinu að staðan í þessum efnum hefur versnað frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Textinn í greinargerð með frumvarpinu er besta sönnun þess að köppunum sem settust í þessa ríkisstjórn og höfðu svo stór orð um það hvernig við sjálfstæðismenn og okkar ráðherrar héldu á málum þegar við vorum í ríkisstjórn hefur ekki tekist betur upp, heldur verr.

Ég mun eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Þetta er skelfilegt mál, það er agalegt til þess að vita að við Íslendingar séum komnir í þá stöðu sem við erum í núna. (Gripið fram í.) Frammíköll frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni gera málið ekki betra. Það breytir því ekki að það er sorglegt og alls ekki gleðiefni að við séum komin í þá stöðu sem hér er uppi. Ég ítreka að ég held að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar leysi ekki þann vanda sem við er að etja, það lækkar ekki þrýstinginn á gjaldmiðlinum og það þarf að grípa til annarra og virkari úrræða en þeirra sem fram koma í frumvarpinu.