136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er áhyggjuefni og hlýtur auðvitað að vera öllum Íslendingum áhyggjuefni í kvöld er sú staða sem upp er komin að gjaldmiðillinn skuli vera í þetta veikri stöðu og að við skulum vera að leiðast út í það að búa til ný höft á eftir öðrum höftum til að reyna að halda í honum lífi.

Hv. þingmaður áttar sig ekki á að kosturinn sem felst í aðildarumsókn að Evrópusambandinu fyrir verðmyndun á gjaldeyri er sá að í slíku ferli er hægt að grípa strax til aðgerða og leita eftir samvinnu við Evrópusambandið um aðgerðir til að styrkja verðmyndun á gjaldmiðlinum til að auðvelda afléttingu gjaldeyrishafta. Það er vandalaust að finna þar ýmis úrræði sem hægt er að hugsa sér og hægt væri að ná samkomulagi um strax í upphafi aðildarviðræðna til að styrkja verðmyndun á gjaldmiðlinum og auðvelda okkur að búa við krónuna til skemmri tíma.

Valkosturinn sem hv. þingmaður hefur sett fram um einhliða upptöku evru er jafnvitlaus og núverandi ástand sem við búum við vegna þess að sá kostur gerir okkur algjörlega varnarlaus gegn útflæði fjár, sem er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna, og mundi setja okkur í viðvarandi erfiða stöðu gagnvart árásum spekúlanta á þann sjóð sem íslenska þjóðin hefði af evrum og mundi því ekki ná að skapa okkur með nokkrum hætti sama ávinning og full aðild að evrunni. Þetta eru staðreyndir sem leiddar hafa verið fram og rökstuddar vel af færum hagfræðingum. Það sem skiptir mestu máli og það sem menn verða að læra af þessari bitru reynslu undanfarinna mánaða er að jafnvel með kút og kork, jafnvel stífuð af í barnalauginni, lifir þessi króna illa af nema í samvinnu við (Forseti hringir.) nágrannaríki okkar og með því að við leitum fjölþjóðlegra lausna á gjaldmiðilsvanda okkar. (Gripið fram í.)