136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:30]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram mjög athyglisverð umræða sem endurspeglar kannski vanda manna við að gera upp við hugmyndir sem hafa ekki reynst sem skyldi og við stöndum frammi fyrir ákveðnu gjaldþroti og skuldabúi sem hefur hellst yfir þjóðina. Sér ekki á svörtu, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins og átti þá við að hið svarta væru höftin eða gjaldeyristakmarkanirnar sem settar voru á sl. hausti og nú væri verið að betrumbæta þær þannig að það væri verið að setja svart ofan á svart.

Í mínum huga er málið öðruvísi og ég er ekki sammála honum um að það sé hið svarta í málinu. Hið svarta sem við sitjum uppi með er frelsið sem ríkti árum saman eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður. Hið takmarkalausa frelsi fjármagnsins án ábyrgðar sem veitti aðilum möguleika til að fara með þeim hætti að þeim tókst að skuldsetja sig langt umfram það sem þeir gátu staðið undir. Það var frelsið sem var vandinn og orsökin fyrir því, skortur á reglum, ekki að það þurfi að afnema frelsið heldur það að hafa frelsi án ábyrgðar, frelsi án takmarka, frelsi án nokkurrar skuldbindingar við þjóðfélag sem menn bjuggu í. Menn fengu algert frelsi til að gera það sem þeim datt í hug og það var ýtt undir það. Mönnum var færð löggjöf og ívilnanir og nýir möguleikar til að það væri alveg öruggt að það væri á engan hátt verið að takmarka frelsi manna vegna þess að menn trúðu því að það væri þjóðinni fyrir bestu að þeir sem væru í fjármálageiranum hefðu sem mest frelsi því það skapaði mestan ábata. Það var trúarsetningin sem var unnið eftir árum saman. Það er það sem er skipbrotið í málinu að frelsið var of mikið. Það vantaði ábyrgðina og menn fóru illa með frelsið og við sitjum uppi með skuldirnar. Við sitjum uppi með skuldirnar en þeir sem fóru illa með frelsið eru farnir úr landi og við vitum ekki hvað þeir fóru með með sér úr landi af þeim eignum sem þeir gátu komist yfir — í krafti frelsisins.

Það sér ekki á svörtu, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins. Í mínum huga er hið svarta hið takmarkalausa frelsi. Menn gengu of langt í því að ýta undir ábyrgðarlausa hegðun í nafni frelsisins. Það er það sem við þurfum að glíma við og ég hef enga trú á því að hvorki hérlendis, í Evrópu né Ameríku muni stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að það eigi að endurreisa gamla frelsið. Þegar ríkissjóðir allra landa eru búnir að skuldsetja skattgreiðendur sína upp í rjáfur fyrir skuldunum sem urðu til vegna frelsisins þá hef ég enga trú á því að þegar menn fara yfir reglur fjármálamarkaðarins að stjórnvöld komist að því að það eigi að endurvekja óbreytt það frelsi sem var. Nei, ég hef trú á því að stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að frelsið eigi að vera með ábyrgð, með reglum sem tryggja almannahag, sem gefa einstaklingum og aðilum svigrúm til athafna en innan þeirra ramma þeirra reglna sem stjórnvöld setja sem eiga gæta almannahagsmuna. Það heitir að gæta almannahagsmuna að setja reglur sem eiga að koma í veg fyrir að nokkrir aðilar geti farið svo að ráði sínu að skuldasúpan hellist yfir alla þjóðina. Ég lít ekki svo á að þeir sem eru í athafnalífinu eigi rétt á frelsi til að skuldsetja aðra fyrir gjörðum sínum. Þess vegna eiga menn ekki að tala um að það sjái ekki á svörtu. Menn eiga að tala um hvernig frelsi menn vilja hafa á komandi árum. Þeir sem vilja starfa og reka þjóðfélag á grundvelli frelsis í atvinnulífinu og trúa því að það sé betra en annað fyrirkomulag.

Ég lít svo á og tel sjálfan mig hlynntan því fyrirkomulagi að styðja við frelsi og einkaframtak en ég tel að það geti ekki gengið án ábyrgðar. Þeir sem eru að starfa verða að axla ábyrgð á því sem þeir gera og þeim verður að setja skorður þannig almannahagsmuna sé gætt og þeir fari ekki þeim að voða. Það er það sem hefur gerst. Fáir hafa farið með hagsmuni margra að voða. Það varð niðurstaðan þegar við stóðum frammi fyrir þeim vanda að skuldirnar voru meiri en við réðum við að við yrðum að fá aðstoð, við gætum ekki ráðið fram úr þeim vanda sem var búið að steypa okkur í hjálparlaust og þess vegna var leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þá var tvennt í stöðunni. Annars vegar að taka skellinn allan strax í botn með því að keppast við að borga út allar skuldbindingarnar og fella reikninginn á þjóðina í formi hærri skulda einstaklinga á fyrirtæki vegna þess að gengið mundi falla svo mikið. Það var önnur leiðin. Hin leiðin var að gera það ekki heldur freista þess að komast frá málinu á nokkrum árum sem þýddi minni gengisfellingu, minni skuldabyrði en lengri tíma til að komast frá málinu. Það varð niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda að fara þá leið og stjórnvöld á þeim tíma voru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna geta þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki komið upp og sagst ekki styðja þetta mál. Þetta er þeirra mál. Þetta var þeirra leið sem varð ofan á, að gera hlutina með þessum hætti vegna þess að menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri illskárri leið fyrir almannahagsmuni, fyrir almenning í landinu.

Hér er ekki verið að taka upp ný höft. Hér er verið að endurbæta reglusmíðina þannig að takmarkanirnar virki í almannaþágu. Það er það sem er verið að gera og menn geta ekki hlaupið frá því. Þingmenn sem í haust settu þessar takmarkanir verandi þá í stjórn, geta ekki hlaupið frá því núna og sagt: Það sér ekki á svörtu. Það svarta sem þeir tala um er þá það sem þeir gerðu í haust. Það sem mér finnst vera athugavert við þennan málflutning er að þeir sem svona tala eru að mæla ábyrgðarlausri hegðun bót. Þeir mæla bót hegðun þeirra aðila í þjóðfélaginu sem grafa undan reglunum, sem grafa undan almannahagsmunum, sem trúa því að þeir, eins og var á tímum þessa góðæris þá gætu menn verið á sérleið, menn gætu farið fram hjá reglunum, tekið til sín aukinn gróða og varpað skuldunum yfir á almenning. Þannig höguðu menn sér fyrir nokkrum árum og alveg fram að bankahruni. Þannig haga þessir aðilar sér, þeir sem hafa leitt til þeirrar stöðu að nauðsynlegt var að leggja fram þetta frumvarp. Það eru aðilar sem vita það vel til hvers reglurnar eru settar. Þær eru settar til að halda genginu sæmilega háu og það er til að skuldir heimila og fyrirtækja rjúki ekki upp úr öllu valdi. En þessir aðilar kjósa sér sérleið. Þeir vilja ekki vera með okkur hinum í þjóðfélaginu. Með því grafa þeir undan því sem stjórnvöld eru að gera, með því að fara fram hjá reglunum, taka í sinn eigin vasa meiri pening sem leiðir til þess að gengið fellur meira og skuldirnar falla á almenning.

Menn mæla þessu bót. Formaður Sjálfstæðisflokksins mælir þessu bót. Þessir sem haga sér svona haga sér engu betur en glæpamenn. Menn verða að sameinast um að gera mönnum ljóst að þeir búa í þessu þjóðfélagi, þeir bera ábyrgð á því með okkur hinum og þeir geta ekki ætlast til þess að fá að leika hér sóló og fara sína eigin leið, taka til sín peninga á annarra kostnað. Þeir tímar eru liðnir, virðulegi forseti, og ég trúi því ekki að það sé meining þingmanna Sjálfstæðisflokksins að hampa þeim sem svona haga sér, þeim sem hækka skuldir almennings. Það er það svarta sem verið er að gera í dag og menn eiga að sameinast um að taka á því og koma í veg fyrir það. Það er löngu komið nóg af hinni hegðuninni sem var mælt bót og þeir sem hafa stjórnað fjármálaráðuneytinu á undanförnum árum bera mikla ábyrgð. Þeir gerðu ekkert í því að stöðva þá ábyrgðarlausu hegðun sem menn ástunduðu, að fara til útlanda með peningana án þess að borga af þeim skatta, fela þá þar. Þeir létu það líðast að menn gætu árum saman komið sér undan því að taka þátt í því að borga kostnaðinn af þessu þjóðfélagi. Fjármálaráðherrar undanfarinna ára bera mikla ábyrgð og þeir bera kannski meiri ábyrgð en nokkrir aðrir í ríkisstjórn á þessum árum. Hvað átti það að þýða að una því, leyfa mönnum að komast upp með að fara með hundruð milljarða úr landi og fela þá í Cayman-eyjum og Tortólu og allt hvað eina? Hvers vegna var ekki gripið til aðgerða? Hvers vegna var ekki sett löggjöf hér á landi? Hvers vegna voru íslensk skattyfirvöld ekki rekin áfram til að fá upplýsingar frá þessum ríkjum? Hvað skýrir athafnaleysi manna á þessum árum? Hvað vakti fyrir fjármálaráðherrum undanfarinna ára með því að láta þetta líðast og gera ekkert til að þessir menn, auðjöfrar, væru með okkur hinum í íslensku þjóðfélagi? Þegar menn tala núna með þeim hætti eins og nokkrir þingmenn hafa gert, þá segi ég kannski í annarri meiningu en formaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan: Það sér ekki á svörtu, því menn eru að viðhalda hinni svörtu hugsun, hinni svörtu hegðun og grafa undan þjóðfélaginu. Að mínu viti á forusta Sjálfstæðisflokksins að huga að því að snúa við blaðinu og taka þátt í því sem hún hóf með lagasetningunni sl. haust, þ.e. að verja almannahagsmuni fyrir sérhagsmunum. Það er ábyrgðarhluti að hlaupa frá málinu og ætla sér að sitja hjá og tala gegn þessu.

Skelfilegt mál, sagði einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Já, það er skelfilegt mál að menn láti það viðgangast að grafið sé undan almannahagsmunum. Höft gjaldeyristakmarkana er niðurstaðan af hinu skelfilega máli, er niðurstaðan af hinni ábyrgðarlausu hegðun. Það er það sem við þurfum að stoppa og ég skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins að sjá að sér í þessu máli fremur en að hlaupast frá sínum eigin verkum sem þeir hófu og ég studdi þá vegna þess að það var rétt skref. Það var ekkert annað hægt að gera á þeim tíma en setja þessar reglur til að vernda almannahagsmuni. Við sitjum uppi með þær næstu árin og verðum að hafa þrek til að klára málið eftir þeirri vegferð sem menn ákváðu að fara. Það er ekki hægt að skipta um leið í miðju kafi.

Hér var spurt, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spurði: Hvernig á að leysa vandann? Það er mjög einfalt mál. Það á að borga hann. Við verðum að borga vandann. Til að það geti gerst, án þess að of þungar byrðar lendi á almenningi verða allir að vera með. Þá getum við ekki leyft nokkrum mönnum að haga sér þannig að þeir taki ekki þátt í því vegna þess að þeir finna leiðir fram hjá kerfinu, komast í burtu frá skuldbindingunum með sína peninga en skilja skuldirnar og afleiðingarnar eftir hjá almenningi og fyrirtækjum landsins. Við megum ekki láta það gerast og við þurfum að taka á því og það er alveg rétt afstaða hjá LÍÚ að styðja þetta mál. Þeir gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem hvílir á þeim og öðrum í þjóðfélaginu. Þeir gera sér greinilega grein fyrir því að þeir eru þátttakendur í íslensku þjóðfélagi og þeir geta ekki hlaupist frá þessu máli og látið eins og það komi þeim ekkert við. Þess vegna er ég sammála þeim og ánægður með afstöðu forustumanna LÍÚ í þessu máli, sem ég er reyndar ekki í öllum öðrum málum, svo ég taki það fram, virðulegur forseti.