136. löggjafarþing — 121. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[23:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla stuttlega að gera grein fyrir afstöðu okkar vinstri grænna til frumvarpsins en hún er í raun sú ein að við fögnum því að það er hér fram komið.

Ég vil vekja athygli á því að hér hafa sex línur í bráðabirgðaákvæði úr frumvarpi um almenna greiðsluaðlögun sem varð að lögum í gær orðið að sextán blaðsíðna frumvarpi. Þetta mál er eitt af mörgum málum sem skipta verulegu máli fyrir heimilin í landinu. Auk almennu greiðsluaðlögunarinnar vil ég minna á lög um frestun og aðför og um gjaldþrot og fleira.

Ég bind miklar vonir við framkvæmd þessa máls og tel að það að innleiða í lög þennan norræna rétt um greiðsluaðlögun, bæði almenna greiðsluaðlögun, sem þegar hefur verið gert og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, eins og hér stendur til að gera, sé mikil réttarbót.

Auðvitað er erfitt að setja slíka löggjöf við þær afbrigðilegu aðstæður sem ríkja í samfélaginu. Það eru hagsmunir beggja aðila, bæði skuldara og kröfuhafa, að eitthvað greiðist inn á skuldir kröfuhafans og skuldarinn viðhaldi greiðslugetunni og geti haldið í eign sína og greitt af henni eins og hann mögulega getur.

Hér er reiknað með því að menn geti gert samning til nauðasamninga um greiðsluaðlögun sem gildi í allt að fimm ár og að þeim tíma liðnum yrði metið hversu mikið stendur út af veðkröfunum miðað við söluverðmæti eignarinnar að viðbættum 10%. Sá hluti sem út af stendur yrði þá felldur niður, veðböndin tekin af þeirri skuld ef sýnt þykir að skuldari getur ekki staðið við skuldbindingar sínar til lengri tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en vil fagna því að það er hér fram komið. Þetta frumvarp er unnið að frumkvæði hv. allsherjarnefndar og er eitt af mýmörgum dæmum um hin nýju vinnubrögð sem upp hafa verið tekin hér í þinginu með því væntanlega að hér er bæði minnihlutastjórn og starfsöm stjórn og starfsamar þingnefndir.