136. löggjafarþing — 121. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[23:57]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp sé komið til umræðu og afgreiðslu og að samstaða skuli hafa náðst í allsherjarnefndinni um nauðsynlegar breytingar á því og sérstaklega varðandi það að taka upp nauðsynleg ákvæði í 4. gr. sem tryggja að það geti ekki hver sem er beðið um greiðsluaðlögun heldur þurfi til að koma ákveðnar aðstæður, sem var nauðsynlegt til að það væri ekki nánast sjálfkrafa verið að veita greiðsluaðlögun. Ég vek sérstaklega athygli á ákvæði 4. töluliðs í 4. gr. þar sem talað er um að sem skilyrði fyrir því að fá greiðsluaðlögun er hér um að ræða að viðkomandi aðili sem hennar beiðist hafi ekki af ráðnum hug gert ákveðnar ráðstafanir, síðan áfram að skuldari hafi ekki hagað fjármálum sínum verulega á ámælisverðan hátt eða stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær, auk ýmissa annarra ákvæða sem þarna komu inn í.

Það var alveg ljóst að hér var um að ræða töluvert inngrip varðandi veðréttinn og það var nauðsynlegt að setja ákveðna varnagla hvað það varðaði og það var forsenda þess að ég styddi það frumvarp sem hér var um að ræða, að tekin væru upp þau ákvæði í 4. gr. laganna sem fjallað er um í 4., 5., 6., 7. og 8. tölulið þeirrar greinar. Með því er fyrir það girt að greiðsluaðlögun komi til greina fyrir þá sem hafa hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti. Hins vegar er verið að tryggja að fólk sem lendir í ákveðnum erfiðleikum, m.a. vegna veikinda eða vegna atvinnumissis, njóti þess hagræðis sem greiðsluaðlögun býður upp á. Fyrirmynd hvað þetta varðar er m.a. norskur réttur og það er mjög gott að þetta mál skuli vera komið í þann farveg sem hér um ræðir.

Ég tel mjög brýnt að reynt sé að hraða því sem mest má verða að þetta frumvarp verði að lögum. Ég lít þannig á að nái frumvarpið fram að ganga hafi á þessu þingi náð fram að ganga helstu baráttumál Neytendasamtakanna um langt árabil um aðgerðir til réttarbóta fyrir neytendur í landinu. Þetta eru aðgerðir sem hafa verið á óskalista Neytendasamtakanna í mismunandi langan tíma, þ.e. lög um innheimtustarfsemi, lög um greiðsluaðlögun og það sem er um að ræða hér, þ.e. um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Í raun má segja að um sé að ræða ákveðið tómarúm ef þessi lög eru ekki sett til hliðar við ákvæðin um greiðsluaðlögun til að þeim ákvæðum sem þar er getið um sé fullnægt, með það í huga hvernig skuldasamsetning íslenskra heimila er. Þetta er líka mjög mikilvægt með tilliti til þess að við höfum aðra lánaumsetningu hér en víðast hvar annars staðar vegna verðtryggingarinnar og þar af leiðandi er það brýnna hér en annars staðar að veita það réttarúrræði sem ákvæði þessara laga um greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðlána kveður á um.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, sér í lagi tímans vegna, að fjalla nánar um þetta en hefði viljað gera það ef eðlilegri efnisröð hefði verið haldið á Alþingi, ef ekki hefði verið klippt á þessa umræðu. En ég tel ástæðu til þess að þakka fyrir það góða starf sem allsherjarnefnd hefur látið vinna með því að gera þetta frumvarp að veruleika og flytja það hér og tel mjög brýnt að það nái fram að ganga.