136. löggjafarþing — 121. fundur,  1. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[00:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér afskaplega merkilegt mál í tvennum skilningi. Það er í fyrsta lagi nefnd sem flytur málið, fullbúið lagafrumvarp og það er þáttur í því að auka vægi Alþingis og minnka vald ráðherraræðis, vald ráðherra, framkvæmdarvaldsins og um leið líka flokksræðisins vegna þess að þarna er það nefndin sjálf, allir þingmenn úr öllum flokkum sem flytja málið og það gerir það að verkum að hinir kjörnu fulltrúar koma að samningu málsins, sem er afskaplega mikilvægt. Á þetta hef ég lagt alveg sérstaka áherslu í prófkjöri sjálfstæðismanna sem ég tók þátt í, að þetta ætti að gerast.

Um leið og þetta er gert þarf nefndin náttúrlega að átta sig á því að hún er að brjóta ísinn á nýrri braut og hún þarf að kanna hvað hún þarf að gera í því skyni að ryðja þá braut sem ég vona að allar nefndir þingsins taki upp, jafnt gagnvart ráðuneytum sem og öðrum aðilum. Ég sé það þannig fyrir mér í framtíðinni að nefndir semji eða hafi umsjón með samningu flestallra þingmála sem verða að lögum og að ráðuneyti, félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki geti beðið nefndina um að flytja mál um eitt og annað og nefndin tekur um það ákvörðun, hvort hún fellst á að flytja málið eða ekki. Ef hún fellst á að flytja það þá lætur hún nefndasvið Alþingis semja það eða einhverja undirnefnd úr nefndinni. Þá er þeim falið að ritstýra og semja svona frumvarp. Þá vantar náttúrlega sérfræðinga til að semja frumvörp og til þess þyrfti Alþingi að veita fé til nefndasviðs, stórauka það, flytja í rauninni sérfræðingana frá ráðuneytunum inn í nefndasvið Alþingis til að semja frumvörp. Nefndasviðið yrði nokkuð viðamikið en mundi um leið undirstrika aukið vægi Alþingis í stjórnun ríkisins.

Sú nefnd sem um þetta fjallaði þyrfti að gæta að því að hún væri að ryðja braut og þá er það spurningin hvernig hún vinnur það. Til dæmis skilst mér að sérfræðingar ráðuneytisins hafi samið frumvarpið að einhverju leyti í stað þess að starfsmenn Alþingis hafi gert það. Það vantar líka mat á kostnaði við frumvarpið eða verðandi lög frá fjármálaráðuneytinu sem nefndin hefði að sjálfsögðu átt að afla áður en frumvarpið var flutt.

Ég hefði líka talið eðlilegt að eftir að nefndin var búin að semja frumvarpið hefði hún vísað því til viðkomandi ráðuneytis til umsagnar þannig að það lægi fyrir og síðan þyrfti nefndin eftir 1. umr. í þinginu að vísa því til umsagnar. Málið þarf í rauninni að ganga til nefndarinnar aftur. Allt eru þetta atriði sem menn þurfa að ræða við þessa miklu breytingu, að flytja samningu lagafrumvarpa inn í nefndirnar. Þetta var um tilurð frumvarpsins sem ég tel vera nokkuð byltingarkennda.

Þá kem ég að frumvarpinu sjálfu sem líka er mjög gott og fer eftir því mottói að það er betra að beygja reyrinn en brjóta hann. Það er betra að menn brotni ekki, verði ekki gerðir gjaldþrota því við gjaldþrot tapast óhemjufjármunir og fólk missir viljann og löngunina til að bjarga sér og það er öllum til tjóns. Hér er tekið á því máli að menn geti farið í greiðsluaðlögun. Það er fundið út hvað menn geta borgað og það borga þeir og ekkert umfram það.

Það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja líta á. Það er talað um að kostnaðurinn sé 200 þús. kr. að hámarki við greiðslumat. Það má vel vera að það sé nærri lagi en ég tel að það eigi að færast aftast á veðröðina við viðkomandi fasteign þannig að ríkissjóður eigi möguleika á að fá þetta greitt ef allt gengur upp og maðurinn getur greitt allar sínar skuldir, þá sé ég enga ástæðu til að ríkissjóður niðurgreiði dæmið. Hins vegar ef það ekki dugar til og maðurinn getur aldrei borgað af íbúðinni og lánið yrði niðurskrifað þá tapist þessi peningur og þá tapar ríkissjóður upphæðinni.

Það var sitthvað fleira sem ég hafði athugasemdir við, við fyrstu sýn. Það hefur ekki gefist langur tími til þess, herra forseti, að lesa þetta frumvarp en það er eitt sem ég rak augun í. Það er t.d. að eftir að aðlögunartímanum er lokið á að afmá þær upphæðir sem standa umfram 10% af verðmæti fasteignarinnar miðað við það sem maðurinn getur borgað. Þarna getur komið upp dálítið skrýtið dæmi. Segjum t.d. að á eigninni séu áhvílandi 20 millj. kr., maðurinn gæti staðið undir 15 millj. kr. og verðmæti eignarinnar sé 9 millj. kr. Þá yrðu skuldirnar afskrifaðar niður í 10 millj. kr. þó að maðurinn gæti staðið undir 15 millj. kr. Þetta þyrfti að laga í nefndinni milli 1. og 2. umr. Ég held því að mjög brýnt sé að málið fari til nefndarinnar eftir umræðu. Nú sakna ég þess að frummælandi málsins er ekki viðstaddur.

Hér hefur dálítið verið rætt um það hversu margir munu lenda í þessu. Það er reyndar hægt að slá á það. Þeir sem tapa núna, þeir sem gætu lent í þessu, er fólk sem hefur keypt sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum. Verðfall á fasteignum á Reykjavíkursvæðinu er eitthvað um 25% frá því að það var hæst í október 2007 og það svarar til um það bil þess verðs sem var fyrir um það bil fjórum árum. Það má segja að allir sem hafa keypt sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum séu að tapa hlutfallslega. Það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki borgað, alls ekki. En skuldirnar hafa vaxið hraðar en eignin. Hinir, sem hafa áður keypt íbúð, munu flestir vera enn í gróða, enn þá hafa hagnað. Það eru ekki nema þeir sem hafa keypt sína fyrstu íbúð á síðustu 4–5 árum og bara á Reykjavíkursvæðinu. Úti á landi gildir þetta ekki. Tökum sem dæmi mann úti á landi sem átti 5 millj. kr., tók 15 millj. kr. lán og byggði hús úti á landi fyrir 20 millj. kr. Daginn eftir að hann flutti inn gat hann ekki selt það nema fyrir 10 millj. kr. Í staðinn fyrir að eiga 5 millj. kr. á hann núna mínus 5 millj. kr. Hann skuldar 15 millj. kr. og getur selt íbúðina á 10 millj. kr. Slík dæmi eru löngu þekkt úti á landi, þ.e. að fólk lendi í mínus eiginfjárstöðu. En það hefur enginn verið að kvarta neitt sérstaklega mikið yfir því, sennilega vegna þess að það er ekki á Reykjavíkursvæðinu. Allir eru svo uppteknir af því sem gerist hérna. Þessi staða hefur verið í áratugi úti á landi, fólk sem byggði þar lendir í því að vera með mínus eiginfjárstöðu. En það hefur ekkert með það að gera að fólk getur yfirleitt engu að síður borgað af skuldum sínum, enda hefur það farið í greiðslumat.

Ef við reynum að slá á það hve margir það eru sem hafa keypt sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum á Reykjavíkursvæðinu þá er árgangurinn u.þ.b. 4.000 manns, þ.e. 2 þúsund pör. Segjum að 1.500 manns séu á Reykjavíkursvæðinu og á fjórum árum gæti sá hópur verið um 6.000 manns. Það gætu verið 6.000 heimili af u.þ.b. 100.000 heimilum í landinu í þessari stöðu. Þar með gætu 6% af þjóðinni hugsanlega verið í vandræðum en samt ekki endilega. Það getur nefnilega verið að greiðslumatið standist þó að menn lendi í mínus eiginfjárstöðu. Hér vantar inn í þá sem tóku ákvörðun um að taka gengistryggt lán til að kaupa íbúð. Það er einhver hópur líka sem er í verulegum vandræðum og enn meiri vandræðum en ég nefndi áðan með verðtryggðu lánin. Ég hugsa að kannski u.þ.b. 10 eða 15% af þjóðinni gætu verið í þessum vanda. Það þýðir að 85–90% af þjóðinni eru ekki í þessum vanda sem við erum að tala um en allt kemur það í ljós þegar könnun Seðlabankans leiðir hið sanna í ljós. Vissulega gæti verið um einhverjar þúsundir manna að ræða sem væru í vandræðum. Frumvarpið sem við ræðum er mjög góð leið til að meta stöðu hvers og eins og niðurskrifa þær kröfur eða flytja þær til eftir því sem persónuaðstæður hvers og eins segja til um. Þannig er horft á stöðu hvers og eins og hver einstaklingur fær þá lækkun á skuldum sínum að hann geti risið undir þeim.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra en vil benda á þessi tvö atriði. Í fyrsta lagi að þetta frumvarp er flutt af nefnd og það er verið að ryðja nýja braut í störfum Alþingis sem ég vona og ætla að berjast fyrir að verði reglan á Alþingi. Svo er hins vegar um afskaplega gott mál að ræða sem gengur út á að koma í veg fyrir að menn missi íbúðina sína með gjaldþroti sem þýðir ekkert annað en tap fyrir alla aðila, jafnt fjölskylduna, bankann og aðra kröfuhafa. (Gripið fram í: Það vantar kostnaðarmatið.) Já, ég nefndi það áðan að það vantaði kostnaðarmat. Nefndin hefði átt að leita eftir kostnaðarmati við samningu frumvarpsins og senda það auk þess til ráðuneytisins til umsagnar. Mér skilst að það hafi verið starfsmenn ráðuneytisins sem sömdu frumvarpið. En í framtíðinni vil ég sjá það þannig að nefndasvið Alþingis semji frumvarpið sem síðan sé sent til ráðuneytisins til umsagnar áður en það er lagt fram á Alþingi. Það held ég að væru hin skynsamlegu og réttu vinnubrögð. Þá mundi ráðuneytið kanna hvernig gengur að framkvæma lögin enda er framkvæmdarvaldið að framkvæma lög alla daga á meðan nefndasvið Alþingis mundi semja lögin og það er mjög mikilvægt.

Sá sem semur texta, semur lögin í upphafi ræður endanlegu útliti laganna og því miður er það oft þannig að þær stofnanir, Samkeppnisstofnun eða skattstofur sem hafa mest vit á hlutunum, mesta þekkingu, semja oft lög til að vinna eftir sem er alveg stórhættulegt því þær gætu freistast til að smíða vopn í hendurnar á sér gegn borgurunum og mörg lagasetningin ber þess vissulega merki.

Allir sem kæmu að málinu seinna þurfa að rökstyðja breytingar, hvort sem það er ráðuneytið sjálft, t.d. ef um væri að ræða samkeppnislög sem Samkeppnisstofnun hefði samið þá þyrfti ráðuneytið að rökstyðja breytingar í ráðuneytinu og fyrir þeim sem samdi frumvarpið. Eftir það þarf ríkisstjórnin að rökstyðja breytingar ef hún vill gera breytingar á frumvarpinu. Þingflokkar stjórnarliðanna þurfa að rökstyðja breytingar, nefndin þarf að rökstyðja breytingar sem gerðar eru á frumvarpinu en upphafshöfundurinn að frumvarpinu þarf ekki að rökstyðja neitt hvernig hann setti textann upp. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt. Það skiptir verulegu máli hver það er sem semur textann, hver það er sem ritstýrir upphaflegum texta sem seinna verður að lögum. Ég vil að það séu þingnefndir Alþingis.