136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:36]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna um skattahækkanir en hins vegar vil ég lýsa því yfir sem formaður fjárlaganefndar að fundurinn í morgun var um margt upplýsandi. Þar voru málefnalegar spurningar og svörin frá ráðuneytinu voru alla jafnan þannig að varpað var ljósi á það sem í gangi er. Auðvitað vinnum við eftir fjárlögum. Ekki hafa komið fram nein ný fjárlög hér á þinginu og þar af leiðandi er það ljóst að sá rammi sem við vinnum eftir er sá sem samþykktur var í desember. Það er hins vegar mjög mikilvægt, eins og fram kemur í nefndaráliti með lokafjárlögunum sem eru til umræðu í dag, að framkvæmd fjárlaga skal vera með því verklagi sem við óskum öll eftir, að ríkisstofnanir almennt virði þau ákvæði og þær leikreglur sem lagt er upp með í fjárlögum hverju sinni.

Ég vil gera örlitla grein fyrir því erindi sem fjárlaganefnd barst á þessum fundi. Samkvæmt 33. gr. fjárreiðulaga skal fjármálaráðherra gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir ófyrirséðum greiðslum úr ríkissjóði strax og ákvörðun hefur verið tekin um það. Hér liggur fyrir bréf til fjárlaganefndar sem fjárlaganefndarmenn hafa fengið sent um hugsanlegar breytingar á útgreiðslum varðandi vaxtabætur en í niðurlagi bréfsins kemur fram að áhrif hækkunar vaxtabóta með hliðsjón af lögum sem hér eru til umfjöllunar munu verða liður í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2009 sem lagt verður fyrir síðar á árinu.

Ég taldi rétt að gera þinginu grein fyrir þessu þar sem það hefur verið í umræðunni, virðulegi forseti, og þessi tilkynning var lögð fram á fundi fjárlaganefndar í morgun.