136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:42]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því sem hér kom fram af hálfu hv. þm. Björns Bjarnasonar að minni hlutinn, þ.e. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi í nefndinni. Það var aldeilis ekki þannig. Það var fyrst á 11. fundi sem haldinn var núna í hádeginu sem kom fram einhver samningsvilji, aldrei áður hafði hann komið fram, ekki í tveggja manna tali og heldur ekki í minni hópum.

Fyrir tveimur dögum ákváðum við að leita leiða til að ná samkomulagi þannig að reynt yrði að gera það í minni hópum og við færum í óformlegar viðræður. Það sem gerðist á þeim degi var að nefndarmenn neituðu að taka þátt í slíkum umræðum. (Gripið fram í.) Sama má segja um formann þingflokks sjálfstæðismanna (Gripið fram í.) sem neitaði að fjalla um mögulegt samkomulag í nefndinni um þetta mikilvæga mál.

Ég tel að það hafi verið komið að því að ekki var um annað að ræða en að taka málið út. Við erum búin að kynna breytingartillögur sem munu koma inn í þingið og verður tekin afstaða til þeirra eftir 2. umr. Þær eru allar hugsaðar þannig að komið er til móts við sjálfstæðismenn en engin viðbrögð voru við þeim tillögum. Það var því ekki annað að gera en afgreiða málið frá nefndinni og það var afgreitt núna í hádeginu með 5 atkvæðum gegn 4. Svo er bara að sjá hvernig umræðan fer fram. Ég efast ekki um að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla að fara í málþóf í þessu máli en hvort það verður þeim til framdráttar í kosningabaráttu (Forseti hringir.) er svo allt annað mál.