136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Í umræðum á Alþingi þann 9. mars 2007 sagði hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Ég tek undir þessi orð hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar sem hann lét falla árið 2007 en mig grunar að hæstv. ráðherra sé búinn að gleyma þessum orðum núna. Ekkert síður en hæstv. heilbrigðisráðherra sem sagði við sama tækifæri, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki.“

Nú er það að gerast að minnihlutastjórnin hér á Íslandi ætlar sér að breyta stjórnarskrá lýðveldisins í mikilvægum efnisatriðum. (Gripið fram í.) Í dag birtist frétt á visir.is þar sem fram kemur að Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, segist telja að breið samstaða verði að vera um breytingar á stjórnarskránni eigi þær að ganga í gegn og ég hygg að ræða hv. þm. Björns Bjarnasonar hér áðan sýni að svo er ekki.

Í umsögn sinni segir Ragnhildur Helgadóttir lagaprófessor að ákvæði frumvarpsins, sem lúta að eignaskilgreiningum á náttúruauðlindum annars vegar og þjóðaratkvæðagreiðslum hins vegar, verði ekki tekin í stjórnskipunarlög núna nema um þau náist sátt allra flokka. Að öðrum kosti sé opnað fyrir pólitískan leik með stjórnarskrána, sem ekki hafi tíðkast áður á Íslandi, og ástæða sé til að vara við.

Ég ætla að taka undir þessi orð lagaprófessorsins. Ég held að það sé ástæða til þess að vara ríkisstjórnina við að ætla að nota stjórnarskrá Íslands, grundvallarlög samfélags okkar, í (Forseti hringir.) pólitískum leik. Ég held að stjórnarskráin eigi annað og betra skilið.