136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hún er dálítið undarleg þessi viðkvæmni gagnvart þeirri umræðu sem hér er varðandi skattahækkanir. Það hefur aldrei verið lokað á nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum. Fyrst og fremst er verið að kalla eftir áformum minnihlutastjórnarinnar sem, samkvæmt upplýsingum hæstv. fjármálaráðherra, munu ekki verða lýðum ljósar fyrr en í fyrsta lagi eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur þóknast að fara yfir þau gögn sem koma frá Íslandi. Það er í fyrsta lagi um miðjan apríl, níu eða tíu dögum fyrir kosningar. Hvers lags framkoma er þetta gagnvart fólki? Það er engin furða þó að uppi séu einhverjar getsakir varðandi það með hvaða hætti standa eigi að skattlagningu. Það er engin furða þó að menn gæli við það í herbúðum Vinstri grænna að leggja eignaskatt á eldra fólk sem býr í skuldlausu húsnæði — þá gerið þið svo vel að upplýsa það.

Það er engin furða þó að kallað sé eftir því hverjar áherslur stjórnarinnar séu varðandi niðurskurð útgjalda þegar upplýst er að búið er að setja á fót þriggja manna vinnuhópa til þess í fyrsta lagi að skoða niðurskurð rekstrar, í öðru lagi að skoða niðurskurð á tilfærslum og í þriðja lagi að skoða niðurskurð á framkvæmdum. Er nokkur furða þó að kallað sé eftir þessum upplýsingum (Gripið fram í.) svo að landsmönnum gefist tækifæri til þess að ræða þær hugmyndir sem minnihlutastjórnin gengur á? — Vel kann að vera að frjálslynda þingmanninn, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, langi að fara heim að sofa. Þá skal hann bera gera það því að ekki hefur hann lagt neitt til málanna hér í þingsölum varðandi það með hvaða hætti taka eigi á fjármálum ríkisins.

En meginatriðið er þetta: Það er kallað eftir upplýsingum og það er lýðræðisleg skylda þessarar minnihlutastjórnar að upplýsa þingheim um það með hvaða hætti hún hyggst taka á þeim erfiðu málum sem fram undan eru. Það liggur fyrir að niðurskurður útgjalda þarf, samkvæmt upplýsingum hæstv. fjármálaráðherra, að vera (Forseti hringir.) 35–55 milljarðar. Ef nást á sátt um það verkefni verður að ríkja traust í (Forseti hringir.) samfélaginu.