136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er hreint með ólíkindum að heyra talsmenn Sjálfstæðisflokksins tala — flokkurinn sem hefur ráðið hér ríkjum síðastliðin átján ár, flokkurinn sem skilar búinu þannig að 170–180 milljarða kr. halli er á fjárlögum ársins í ár. Það eru hinar miklu skattahækkanir sem lagðar eru á íbúa landsins og áfram næstu tvö til þrjú árin.

Hann kemur ekki einu sinni auðmjúkur og biðst afsökunar. Nei, það er eins og hann sé að stæra sig af þessu. Þetta er flokkurinn sem lét hvað hæstu skattbyrðina lenda á lægstu tekjunum. Þegar sköttum var breytt í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins var það gert með flötum hætti þannig að þeir sem voru með lægstu tekjurnar báru hlutfallslega hæstu skattana. Þeirri stefnu verður breytt.

Ég get lofað þingmönnum Sjálfstæðisflokksins því að tekin verður upp gjörbreytt forgangsröðun við fjárlagagerð verði Vinstri grænir áfram í ríkisstjórn eftir kosningar, sem við treystum á að verði. Þá verður ekki lögð megináhersla á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu eða Sjúkratryggingastofnun upp á hundruð milljóna kr. eða Varnarmálastofnun, gæluverkefni, upp á 1,5 milljarða. Nei, þá verður lögð áhersla á velferðarmálin, jöfnuð og jafnrétti þannig að kjör þeirra sem hafa lægstu tekjurnar verði varin en ekki eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins gerði að ráðast fyrst á þá sem máttu sín minna.

Stefna þessara flokka er býsna ljós. Við Vinstri græn höfum staðið hér í brúnni og gagnrýnt þessa gjaldþrotastefnu Sjálfstæðisflokksins sem nú er, og það veit þjóðin. Vill þjóðin fá Sjálfstæðisflokkinn aftur yfir sig? Stefna hans er óbreytt eins og hún hefur verið undanfarin átján ár, það heyrðum við hjá hv. þm. Guðlaugi Þór (Forseti hringir.) Þórðarsyni, áframhaldandi einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Nei, hér verður breyting á, herra forseti, að kosningum loknum. (Forseti hringir.) Ég lofa því.