136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[14:02]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúna til að koma upp undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, þar sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur í tvígang sagt í þessum ræðustól að ég hafi hafnað því að ræða við hana um það hvernig ljúka ætti umræðu um stjórnarskrármál í sérnefnd um stjórnarskrármálin. Þessu hafna ég alfarið. Hið sanna er að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom til mín þar sem ég sat hér í sæti mínu og beið eftir umræðu og nefndi að hún þyrfti að eiga fund með mér. Ég tók því afar vel eins og ég tek slíkum tilboðum gjarnan. Síðan fór ég í mína ræðu og þegar ég kom aftur úr ræðustólnum var hv. þingmaður horfin úr salnum og horfin úr húsinu og hefur ekki óskað frekar eftir því að fá að ræða við mig um þessi mál. Ég veit að það er hv. þingmanni ekki eðlislægt (Forseti hringir.) að segja svona rangt frá en ég vildi gjarnan leiðrétta það í þessu tilfelli vegna þess að hún er búin að tvítaka það hér (Forseti hringir.) að ég hafi hafnað viðræðum við hana.