136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[14:04]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér leiðist frekar að þurfa að koma hér upp til að halda þessari umræðu áfram en ég tel mig tilknúna til þess vegna þess að hv. þingmaður segir ekki alveg rétt frá. Því var bókstaflega hafnað að ræða hvernig við gætum tekið þetta stóra mál út úr nefnd sem varðar stjórnarskrána. Hún hótaði eiginlega málþófi, ég get bætt því við það sem ég sagði áðan fyrst hún vill halda áfram umræðu um þetta. Það var ekkert um það að ræða að hún vildi tala við mig um þetta. Það er líka ákveðin taktík sem maður tekur eftir að Sjálfstæðisflokkurinn beitir og er ekkert nýtt, ég þekki þetta t.d. frá Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni, það er að reyna ekkert að semja og vilja helst ekkert tala um neina möguleika eða neina fleti á samkomulagi fyrr en á síðustu stundu. Og síðasti fundur, 11. fundur í nefndinni í morgun var með þeim hætti að þá voru þingmenn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins allt í einu tilbúnir að fara að ræða eitthvert samkomulag. (Forseti hringir.) Það var bara einfaldlega of seint.