136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.

447. mál
[14:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kærkomið að fá tækifæri til að fara aðeins yfir það hvernig skattlagningu fyrirtækja í eigu erlendra aðila er háttað hér á landi. Ábatinn af starfsemi þeirra felst fyrst og fremst í launum starfsmanna, hagnaði fyrirtækisins og vöxtum af fjármagni en mestur hluti ábatans rennur til hins erlenda eiganda, þ.e. annar en laun starfsmanna og skattur af hagnaði af starfsemi hér. Innlendur ábati af starfsemi í eigu erlendra aðila ræðst því að verulegu leyti af því hvernig staðið er að skattlagningu.

Öll atvinnustarfsemi erlendra aðila hér á landi fellur undir íslensk skattalög og eru fyrirtæki erlendra aðila skattskyld af þeim tekjum sem hér verða til, það er almenna reglan. Að auki getur erlendum eigendum félaga verið gert að greiða afdráttarskatt af þeim arði sem þeir taka til sín af félaginu. Skatttekjur af erlendri fjárfestingu í formi lána hafa hins vegar engar verið hér og vextir sem greiddir eru úr landi hafa ekki verið skattlagðir hér ólíkt því sem er í flestum öðrum ríkjum.

Skattaleg meðferð virðisauka af erlendri fjárfestingu hér á landi er mjög mismunandi. Sá hluti virðisaukans sem fer í laun sætir að jafnaði mestri skattlagningu. Hagnaður félaga er skattlagður mun vægar og vextir til erlenda aðila hafa eins og áður sagði verið skattfrjálsir. Þótt íslenskar reglur um skattlagningu tekna erlendra aðila séu að formi til sambærilegar því sem er í öðrum löndum er sköttum hér beitt í minna mæli til að tryggja innlenda hlutdeild í þeim virðisauka sem hér skapast. Með lækkun á tekjuskatti félaga á undanförnum árum, lækkun fjármagnstekjuskatts, skattfrelsi á arðgreiðslum milli félaga og fleiri breytingum hefur hlutdeild landsins í þessum virðisauka verið minnkuð umtalsvert og engar sérstakar ráðstafanir hafa verið til staðar til að hindra að slíkur arður renni óskattlagður úr landi. Framangreint á ekki aðeins við framleiðslufélög í eigu erlendra aðila svo sem álver heldur einnig um fjármálafélög og eignarhaldsfélög sem erlendir aðilar eiga hér á landi. Þær reglur sem á þessum vettvangi gilda gera það að verkum að bæði sá hagnaður sem þessi félög fá erlendis frá og af innlendri starfsemi þeirra á greiða leið úr landi án þess að veruleg skattlagning komi til.

Eins og kunnugt er eru öll stóriðjuver á Íslandi í eigu erlendra aðila. Reikna má með að tekjuskattur eins álvers af þeirri stærð sem algeng er hér á landi geti verið um einn og hálfur milljarður dala í meðalári. Þess ber þó að geta að vegna hagstæðra afskrifta greiða álverin að jafnaði engan tekjuskatt fyrstu sjö til tíu árin. Þannig greiða væntanlega einungis tvö álver tekjuskatt á næstu árum og er hann reyndar um helmingi lægri nú en hann hefði verið án þeirra breytinga á sköttum félaga sem gerðar hafa verið síðustu ár. Þau og orkuverin sem sjá þeim fyrir raforku eru fjármögnuð með erlendu fé og skatttekjur af því hér á landi eru engar.

Þá er einnig kunnugt að fjölmörg íslensk fyrirtæki, einkum á fjármálasviði, hafa verið beint eða í gegnum millilið í eigu erlendra félaga. Á það við hið sama og að framan segir að skattur hér á landi er ekki verulegur hluti þess hagnaðar sem þau hafa aflað hér og enginn skattur greiðist af þeim hagnaði erlendra dótturfélaga þeirra sem þau kunna að hafa tekið til sín í formi arðs. Ekki liggja fyrir tölur um þann hagnað sem hér um ræðir en ljóst er að hann er umtalsverður. Erlendir skráðir eigendur áttu meiri hluta þeirra fjármálafyrirtækja sem umsvifamest voru hér á landi og ljóst að samsvarandi hluti af hagnaði þeirra félaga féll til erlendra eigenda. Sé einnig svo, eins og ýmsir hafa haldið fram að undanförnu, að hinir raunverulegu eigendur hinna erlendu eignarhaldsfélaga séu íslenskir menn eða félög er ljóst að lág skattlagning hefur þó ekki dugað til að halda þeim hér á landi og þeir hafa talið sig þurfa að bæta hlut sinn enn ofan á lága skatta hér með hreinni skattasniðgöngu.

Ég vil svo að lokum bæta við að hendur hafa verið látnar standa fram úr ermum í þessu efni í fjármálaráðuneytinu frá 1. febrúar sl. og þess sér m.a. stað í frumvarpi sem ég vænti að bíði nú 3. umr. og lokaafgreiðslu hér á þingi, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu, með síðari breytingum. Þar er m.a. lagt til að tekin verði upp skattlagning vaxta sem erlendir aðilar fá greiddan héðan frá landinu, svonefndir afdráttarskattar, sem fyrst og fremst hafa það í för með sér að hluti slíkra skatttekna rennur til ríkissjóðs Íslands í staðinn fyrir að renna óskertur úr landi og koma öðrum ríkjum til góða. Sömuleiðis er í þessu frumvarpi að finna upptöku svonefndra CFC-reglna til þess að samskatta móðurfélög og dótturfélög á aflandssvæðum þannig að hluti slíkra skatttekna (Forseti hringir.) komi sömuleiðis okkur Íslendingum og ríkissjóði okkar til góða.