136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.

447. mál
[14:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin og hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir framlag hans til umræðunnar. Ég er sammála því sem fram kom í máli hans. Ég held að það verði ekki nógsamlega dregið fram og hamrað á því á næstunni að við verðum að læra af þeim vítum sem við sjáum liggja í fortíðinni í þessum efnum. Það er alveg greinilegt að niðurstaða hæstv. fjármálaráðherra er í meginatriðum sú sama og Indriði H. Þorláksson komst að í greinargerð sinni í mars 2008. Þær ályktanir hans eru því nú orðnar skoðun ráðherra sem hefur auðvitað miklu meira vægi og ber að taka af fullum þunga alvarlega og ráðherrann hefur líka möguleika á að koma fram breytingum til að fyrirbyggja að áframhald verði á því athæfi sem gagnrýnivert er. Ráðherrann hefur lýst því að hér í þinginu eru til meðferðar breytingar sem að nokkru leyti eiga að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem varð.

Ég mundi vilja beina því til hæstv. ráðherra að hann setti í gang athugun á því hvað íslenska ríkið er talið hafa tapað miklum fjármunum á síðustu 3–4 árum vegna þess að íslenskir aðilar nutu leiðbeininga íslenskra fjármálafyrirtækja, eins og banka og endurskoðunarfyrirtækja, til að komast fram hjá eðlilegum leikreglum í þjóðfélaginu að borga sína skatta. Það dugði ekki til að skattarnir væru lágir eins og fjármagnstekjuskattur því að græðgin var svo mikil að menn tímdu ekki einu sinni að borga það og notuðu þessa leið til að komast hjá því að taka þátt í að leggja sinn skerf í þjóðfélaginu og leggja sitt fram til að halda uppi velferðarþjóðfélagi. Í mínu ungdæmi voru þeir sem svona höguðu sér kallaðir aumingjar og það mega þeir heita, þessir ágætu menn.