136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að verðtryggingin er aðferð og leið til að lifa við afleiðingar verðbólgu. Hún er ekki leið til að leysa verðbólguvandann. Það má jafnvel færa fyrir því rök að við vissar aðstæður geti verðtryggingin allt að því magnað upp verðbólguvandann með því að ýta undir óhófleg útlán og ábyrgðarlausa útlánastefnu. Of mikil trygging getur verið vandi.

Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra sem lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn til þess, þá væntanlega fyrir hönd síns flokks, að reyna að finna leiðir til að draga úr verðtryggingu. Við sjálfstæðismenn bentum á landsfundi okkar á þær leiðir sem við teljum mögulegar til þess einmitt að draga úr notkun verðtryggingarinnar. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að það var óhapp og ógæfa að okkur tókst ekki í kjölfar þjóðarsáttarinnar að draga úr verðtryggingunni. Annað tækifæri er að myndast núna vegna þess að verðbólgan er að fara niður og stýrivextir hljóta að fara niður á næstu mánuðum ef ekki verða einhver sérstök afglöp í stjórn efnahagsmála.

Við eigum að nýta þetta tækifæri, líka vegna þess að það er augljóst í mínum huga að hér verður ekki komið við neinni skynsamlegri hagstjórn, þá sérstaklega í stjórn peningamála, nema við vinnum okkur út úr allri þessari verðtryggingu. Það er útilokað mál að stýrivextir Seðlabankans hafi það gildi og það vægi sem þeir þurfa að hafa ef við erum áfram með stærstan hluta af skuldbindingum landsmanna fastan í verðtryggðum krónum og hinn hlutann í óverðtryggðum en það er einmitt á þann hlutann sem stýrivextirnir beita sér fyrst. Um leið og við komumst út úr þessu haftakerfi, komumst í eðlilegt umhverfi og aftur fer að reyna meira á stýrivextina sem hluta af hagstjórnartæki til að koma í veg fyrir verðbólgu verðum við að hafa nýtt tímann. Við verðum að hafa nýtt þetta tækifæri sem nú er fram undan til að geta búið áfram við íslenska krónu. Ég held að allir séu sammála um að það verður hlutskipti okkar á næstu missirum og mánuðum, sama hvað mönnum finnst um Evrópusambandið (Forseti hringir.) munum við þurfa að gera þetta og þá verðum við að geta notað stýritæki Seðlabankans þannig að það virki.