136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu vegna þess að verðtryggingin, ef eitthvað er, er mikill bölvaldur fyrir mörg heimili í landinu, hefur lagst og leggst mjög þungt á húsnæðislán hinna venjulegu vinnandi Íslendinga. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við finnum raunhæfar leiðir til að afnema verðtrygginguna og losa íslensk heimili út úr þessu ástandi. Þá verðum við að horfa í kjarnann á peningastefnunni. Eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstunni er að endurskoða og marka nýja peningamálastefnu. Það er ekki neitt launungarmál að við í Samfylkingunni lítum þar til upptöku evru í gegnum aðild að ESB vegna þess að það er alveg klárt að það er raunhæf leið. Þannig skapast skilyrði fyrir sambærilega vexti á íbúðalán og er í öðrum löndum og með því mun verðtryggingin klárlega heyra sögunni til. Fram að því þurfum við að leggjast á eitt til að draga úr áhrifum verðtryggingarinnar í íslensku samfélagi og í því efni er ég sammála þeim sem hafa talað á undan mér.

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg að horfa bara til framtíðar. Þetta er núna mjög mikill vandi hjá heimilunum í landinu, akkúrat núna þar sem við stöndum á deginum í dag. Þess vegna hefur sú ríkisstjórn sem nú situr gripið til þess að auka mjög fjármuni til vaxtabótakerfisins þannig að þar verði um 10 milljarðar kr. ef frumvarp sem liggur fyrir þinginu verður að veruleika, auka þannig við vaxtabótakerfið til að endurgreiða þennan gríðarlega kostnað sem heimilin verða fyrir út af háum vöxtum og háum verðbótum. Verði þetta frumvarp að lögum, virðulegi forseti, munu hjón sem eru hvort með sínar meðaltekjur, 330.000 kr. hvort, fá um 45% af vaxtakostnaði sínum til baka ef þau eru með um 15 millj. kr. húsnæðislán. Þetta skiptir Íslendinga gríðarlegu máli. (Forseti hringir.) Vaxtabótakerfið þarf að vera öflugt núna þegar við mætum þessum bráðavanda til að endurgreiða þennan óréttláta skatt (Forseti hringir.) sem heimilin verða fyrir í gegnum verðbótakerfið.