136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[15:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að hefja þessa umræðu, en hún er afar brýn og felur líka í sér lausn til að mæta þeim vanda sem stór hluti heimilanna í landinu glímir við í augnablikinu. 50% heimila eru tæknilega gjaldþrota og þá verða stjórnvöld að hafa hugrekki og kjark til að taka stórar ákvarðanir til að forða heimilum frá gjaldþroti.

Ég hef talað fyrir því að færa vísitöluna aftur á mitt síðasta ár. Það mun vissulega fela í sér að þeir sem eiga innlán og í lífeyrissjóðum tapa einhverju af áföllnum vöxtum en höfuðstóllinn mun ekki minnka að neinu mati.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að leiðrétta skuldir heimilanna og færa þær niður um 20%. Það er tillaga sem við höfum lagt fram og ég vil taka fram að ég varð fyrir vonbrigðum áðan þegar hæstv. fjármálaráðherra kom hér og sagði að ríkisstjórnin hefði í sjálfu sér ekki markað framtíðarstefnu hvað varðar peningamálin. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi og heldur ekki aðra þingmenn stjórnarinnar sem sögðu að mikilvægt væri að finna raunhæfar leiðir og endurskoða þyrfti og meta og marka nýja peningastefnu.

Nú er tíminn. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var þetta vandamál til staðar og það var algert skilyrði af hálfu Framsóknarflokksins að ríkisstjórnin tæki ákvarðanir til þess að (Forseti hringir.) koma heimilum og fólkinu í landinu út úr þeim vandræðum sem það glímir við í augnablikinu.