136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[15:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér hefur ýmislegt athyglisvert komið fram. Ég held að við verðum að hafa í huga að vandinn er jafnumfangsmikill og hann er, annars vegar vegna þess að íslensk heimili og íslenskir atvinnuvegir, þótt við ræðum hér aðallega um heimilin, voru fyrir mjög skuldsett. Í öðru lagi þá súpum við náttúrlega seyðið af þeirri miklu fasteignabólu sem hér varð sem lyfti fasteignaverðinu upp og jók veðrými á húsnæði og verð var mjög hátt og leiddi til mikillar skuldsetningar. Fróðlegt væri fyrir hv. þingmenn að bera saman kennitölur í þessum efnum, annars vegar hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þessi mikla bóla varð, og hins vegar hvernig skuldsetningu er háttað víða á landsbyggðinni þar sem kannski rólegra og heilbrigðara ástand ríkti á fasteignamarkaði, þrátt fyrir allt.

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að verðtryggingin og umfang hennar í hagkerfinu er að sjálfsögðu eitthvað sem þarf líka að líta til í hagstjórnarlegu tilliti. Enginn vafi er að það dregur úr virkni stýritækja Seðlabankans og annarra aðila sem fara með hagstjórn að verðtryggingin er jafnumfangsmikil og raun ber vitni og þeim mun meira umhugsunarefni er það kannski að við höfum síðan 2001 byggt á löggjöfum Seðlabankans þar sem verðlagsstöðugleikamarkmið eitt er lagt til grundvallar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé úrelt í ljósi reynslunnar og hvernig til tókst og að t.d. gengisstöðugleikamarkmiðið eigi að koma þar með.

Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að vaxtabæturnar eru þar mikilvægar og eru besta tækið sem við höfum til að stýra endurgreiðslu á einhverjum hluta þess kostnaðar til þeirra hópa sem eru í mestri þörf fyrir það, þ.e. tekjulægstu hópanna. Það er athyglisvert ef Framsókn er nú orðið mjög í nöp við verðtryggingu því fyrrverandi foringi þeirra Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, var eiginlega guðfaðir hennar með Ólafslögunum frá 1979 þar sem hún var fest í sessi og endanlega ákveðin.

Varðandi bankana sem hér var spurt um þá kannast ég ekki við að þeir hafi af einhverjum ásetningi hækkað álögur, en auðvitað bitnar hið háa vaxtastig og aðstæður á fjármálamarkaði á getu bankanna til að veita þjónustu á kjörum. Þeir (Forseti hringir.) bíða eftir vaxtalækkun engu síður en aðrir, það veit ég fyrir víst. Bankakerfið bíður eftir því að geta tekið vextina niður.

Að lokum kalla ég það bara oftryggingu á fjármagni að vera með verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, það eru bæði belti og axlabönd á fjármagninu.