136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:02]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég tek til máls hér við 3. umr. og fagna þessu máli og tel að það geti orðið mikil lyftistöng fyrir kvikmyndagerð á Íslandi.

Ég skrifaði ásamt öðrum sjálfstæðismönnum í nefndinni undir nefndarálitið með fyrirvara. Var það vegna umsagna fjármálaskrifstofu þar sem talið var að ekki væri gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingum vegna þessa máls í fjárlögum ársins og að jafnvel þyrfti að koma til lántöku.

Í nefndaráliti hefur málið verið skýrt og var það ástæðan fyrir því að við hv. þingmenn, Herdís Þórðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir og ég, gátum samþykkt þetta mál. En í nefndarálitinu var það skýrt að eitt af skilyrðum laganna sé að senda inn umsóknir til iðnaðarráðuneytisins áður en framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hefst. Í framkvæmd hefur aldrei verið vikið frá þessu skilyrði laganna og umsóknum sem berast eftir að framleiðsla er hafin, er hafnað.

Í ferlinu fer nefnd sem skipuð er fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti ásamt Kvikmyndamiðstöð, yfir umsóknirnar og metur hvort öll skilyrði laganna séu uppfyllt. Í framhaldinu er gerð tillaga til iðnaðarráðherra um afgreiðslu málsins og teljist öll skilyrði laganna uppfyllt gefur iðnaðarráðuneytið út vilyrði fyrir endurgreiðslu. Í vilyrðinu kemur fram að endurgreiðslufjárhæð er ekki greidd út fyrr en framleiðslu kvikmyndaverkefnisins er lokið og uppgjör og ársreikningur liggur fyrir. Endurgreiðslufjárhæðin er því aldrei greidd út fyrr en uppgjör liggur fyrir og hin sérstaka endurgreiðsla er oft síðasti liður í uppgjörsferlinu vegna framleiðslu kvikmynda. Í reynd er því verið að endurgreiða kostnaðinn jafnvel einu til tveimur árum eftir að framleiðslu kvikmyndar er lokið. Ríkissjóður ætti því að hafa fengið til sín stærstan hluta skatttekna vegna framleiðslu þegar til útborgunar kemur. Með þessari skýringu lít ég svo á að við getum stutt þetta mál og munum gera það.

Niðurgreiðsla sem þessi getur orðið mikil lyftistöng fyrir kvikmyndaiðnaðinn hér á landi, hún er bæði atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi. Ef við fáum hingað til lands stór verkefni skiptir það gríðarlega miklu máli því að eins og atvinnuástandið er í dag þurfum við nauðsynlega á nýjum atvinnutækifærum að halda. Er eftir miklu að slægjast ef við gerum út á þessi mið því að þar geta skapast fjölmörg störf og kvikmyndaiðnaðurinn getur eflst.

Þegar herstöðinni á Keflavíkurflugvelli var lokað á sínum tíma komu fram margar hugmyndir um nýtingu á því húsnæði sem til féll þegar varnarliðið fór. Ein hugmyndin var einmitt sú að fara þá leið sem farin hefur verið í mörgum löndum og jafnvel sums staðar þar sem herstöðum hefur verið lokað, hefur þeim verið breytt í kvikmyndaver með góðum árangri.

Fram komu stórhuga aðilar sem höfðu hug á og vildu gjarnan festa sér húsnæði á gamla varnarsvæðinu til að byggja upp kvikmyndaver og átti að vera eftirsóknarvert fyrir stóra framleiðendur að koma til Íslands til þess að taka upp kvikmyndir. En því miður hefur lítið orðið af því vegna bankahrunsins og ýmissa annarra aðstæðna sem hafa hægt svolítið á þessu ferli. En þetta frumvarp, ef það verður að lögum, gæti þó orðið til þess að hugmyndir sem þessi fái aftur byr undir báða vængi.

Stór kvikmynd sem tekin var upp á Reykjanesi árið 2005 hafði gríðarlega mikil áhrif á Suðurnesjum og tók um tvo mánuði að vinna það verkefni. Það var stórmyndin Flags of Our Fathers sem var tekin upp þar og hafði gríðarlega mikil áhrif á samfélagið þar sem þjónusta var mikið sótt til Reykjanesbæjar. Á ýmsu þurfti að halda, hótelherbergjum og fleira, og sáu veitingastaðaeigendur fram á aukna veltu. Kvikmyndagerðarmennirnir þurftu einnig bílaleigubíla og ýmsa aðra þjónustu sem til féll sem hægt var að fá keypta í Reykjanesbæ.

Um 1000 Íslendingar fengu vinnu við þá kvikmynd þótt í stuttan tíma væri og hljóðaði fjárhagsáætlunin fyrir kvikmyndina sem gerð var, upp á 80 millj. dollara, ef ég man rétt. En nú er verið að tala um margfalt stærra verkefni sem hugsanlega gæti komið hingað til lands frekar en til Írlands, það er mun stærra en verkefnið sem tekið var upp á Reykjanesi árið 2005.

Kvikmyndir sem teknar eru upp á Íslandi í okkar stórbrotnu náttúru hljóta jafnframt að vera gríðarlega mikil auglýsing fyrir landið og fjölga þeim sem vilja koma og heimsækja okkur. Við höfum upp á margt að bjóða sem gæti verið góður bakgrunnur í kvikmyndaheiminum. Við höfum snjó og jökla, við höfum græn tún og dali og við höfum víðáttuna. Ég hef sagt áður að við höfum allt hérna og getum eflaust bjargað öllu sem þarf að bjarga varðandi kvikmyndaupptökur. Það eina sem þessir erlendu aðilar þurfa að vita er að við ráðum ekki við veðráttuna hér á landi sem getur auðvitað haft hamlandi áhrif á kvikmyndagerð. Þegar veður eru vindasöm hefur það efalaust mikil áhrif, að minnsta kosti á útimyndatökur.

Virðulegi forseti. Mikil þekking á kvikmyndagerð og þjónustu henni tengdri hefur skapast á Íslandi á undanförnum árum og í því felast verðmæti sem, ásamt íslenskri náttúru, geta skapað sóknarfæri á sviði kvikmyndagerðar. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa fengið ýmis verðlaun á erlendri grundu fyrir íslenskar kvikmyndir og þykja þeir mjög flinkir og eftirsóttir í sinni grein. Það er því eftir mörgu að slægjast hér. Þess vegna tel ég að það sé alveg nauðsynlegt að fara þá leið að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 14% í 20% til þess að við séum þar samkeppnishæf við löndin í kringum okkur. Sagt er að Írland sé það land sem greiði hæsta endurgreiðsluhlutfallið en með því að hækka okkur upp í þessi 20% erum við á sama róli og flest lönd í kringum okkur.

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé hið besta mál. Það er atvinnuskapandi og aflar landinu gjaldeyris og ég tel að þetta hafi mikil áhrif á ferðaþjónustuna í landinu, að ferðamannaþjónusta muni aukast við að fá fleiri til að taka upp kvikmyndir hér á landi. Því tel ég að við mættum hugsa það mál vel, við Íslendingar, hvort ekki sé full ástæða til að sækja á þessi mið þar sem eftir miklu er að sækjast. Hér í landinu er mikil fagþekking sem við eigum að nýta sem best.